fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimFréttirFékk meindýraeyði til að fanga ketti á fölskum forsendum

Fékk meindýraeyði til að fanga ketti á fölskum forsendum

Þóttist vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar

Meindýraeyðir var fenginn til að safna saman köttum í Hafnarfirði að ósk ónefnds aðila sem kynnt hafði sig sem starfsmann Hafnarfjarðarbæjar að sögn meindýraeyðinsins. Skv. upplýsingum samtakanna Villikatta náði hann 16 dýrum í búr í austurhluta bæjarins og afhenti þá þessum aðila sem pantað hafði meindýraeyðinn í verkið.

Samtökin hafa fengið staðfest að einhverjir þeirra hafi verið eyrnaklipptir og því geldir af Villiköttum, en það er merki TNR aðferðarinnar sem félagið vinnur eftir. Eins hafi þarna verið ómerktir kettir sem og tveir sem greinilega höfðu nýlega farið í einhversskonar aðgerðir. Annað taldi meindýraeyðirinn vera villiketti.

Ekki fæst uppgefið hvaða meindýraeyðir þetta er né hvert nafnið er á þeim sem þóttist vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar

„Við höfum tilkynnt þetta mál til Hafnarfjarðarbæjar sem og Heilbrigðiseftirlitsins og kannast enginn við að hafa óskað eftir þessu verki af þeirra hálfu. Það er verið að vinna í málinu með lögmanni bæjarins en þetta mál er með öllu óskiljanlegt og hörmum við hjá Villiköttum afdrif þessara katta sem fullvíst er að hafi verið lógað, en þó ekki vitað hver sá um þá aflífun,“ segir  á síðu Villikatta.

Föngun og aflífun katta í bæjarlandi Hafnarfjarðar er alfarið í höndum Hafnarfjarðarbæjar eða Heilbrigðiseftirlitsins og því ólöglegt að einstaklingar taki slík mál í sínar hendur.

Málið er í skoðun hjá lögmanni Hafnarfjarðarbæjar, Sigríðar Kristinsdóttur en hún segist í svari til Fjarðarfrétta ekki geta upplýst nafnið á “meintum meindýraeyði”. Segir hún erindi frá félagi Villikatta vera í skoðun hjá bænum en ekkert bendi til þess að bærinn eigi aðild að föngun þessara villikatta.

Sigríður hefur ekki svarað fyrirspurn Fjarðarfrétta um rök hennar fyrir því að upplýsa ekki um nafn á meindýraeyðinum svo hægt sé að hafa samband við hann.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2