fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirFagnaðarerindið á fullt erindi núna

Fagnaðarerindið á fullt erindi núna

Sr. Jón Helgi Þórarinsson og sr. Jónína Ólafsdóttir prestar í hafnarfjarðarkirkju í viðtali.

Jón Helgi Þórarinsson og Jónína Ólafsdóttir eru prestar Hafnar­fjarðar­kirkju en Jónína var ráðin sem sóknar­prestur kirkjunnar 1. mars sl. eftir að hafa verið þar prestur í eitt ár. Áður hafði hún verið skipuð afleysingaprestur á Dalvík.

Blaðamaður Fjarðarfrétta hitti þau Jón Helga og Jónínu í Hafnar­fjarðar­kirkju og forvitnaðist um þau og kirkjustarfið.

Sterkar tengingar

„Ég fæddist á Borgarfirði eystri þar sem pabbi minn var skólastjóri um tíma. Þetta var 1984 og Jón Helgi, sem þá hafði sótt um sem prestur á Dalvík, kom í heimsókn til þeirra en mamma var þá í raun að bíða eftir að ég fæddist. Og þetta barn sem svo fæddist varð síðar prestur á Dalvík,“ segir Jónína og hlær.

Jón Helgi og faðir Jónínu voru sam­stúdentar og bekkjarfélagar til margra ári. Árið 1983 var Jón Helgi ráðinn sem prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og var í um eitt ár þar á undan sr. Einari Eyjólfssyni. En sótti svo um á Dalvík og fékk stöðu þar sumarið 1984.

„Við erum af sitt hvorri kynslóðinni, sem er ákveðinn kostur, karl og kona, og ég get bara sagt það svo allir heyri að ég hef aldrei átt jafn góðan sam­starfsmann og Jón. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af samstarfs­örðug­leikum.“

Falleg og mikið notuð kirkja

Aðspurð hvað einkenndi Hafnar­fjarðarkirkju svaraði Jón Helgi því til að sökum stærðar og staðsetningar væri hún kirkja sem mjög margir tengja við í Hafnarfirði. Sagði hann að margir sem búi utan sóknarmarkanna tengist kirkj­unni og vilji nota þjónustu hennar. Sagði hann kirkjuna mjög mikið notaða og ekki síður safnaðarheimilið þar sem fólk kemur m.a. saman í veislum og í tengslum við útfarir og kirkjan mjög vinsæl fyrir athafnir. „Þetta er falleg kirkja, það er gott að koma inn í hana og fallegur arkitektúr, sem reyndar má segja sama um aðrar kirkjur í bænum,“ sagði Jón Helgi og bætti við að kirkjan væri mjög hlýleg, jafnvel fyrir litlar athafnir, enda hafi endurbætur á henni tekist mjög vel. Þar að auki væru í kirkjunni ein bestu orgel landsins og í kirkjunni mjög góður hljómburður.

Kirkjustarf í mótun

Um starfið sagði Jónína að kirkjan væri í stefnumótunarvinnu núna. „Við erum t.d. að taka okkur taki í um­­hverfis­málum,“ sagði Jónína og upp­lýsti að það snerti alla sem nýti sér húsnæði kirkjunnar. „Svo erum við að breyta áherslum varðandi fræðslustarf og ætlum að vera með fræðslufulltrúa sem heldur þétt utan um barna- og æskulýðsstarf og eins samfélagsmálin. Þar höfum við tekið okkur verulega á, bæði á Facebook og Instagram. Ég held að kirkjan þurfi að færa sig nær því sem er að gerast úti í hinu almenna lífi, eins og hún hefur alltaf þurft.“

Aðspurð sagði hún vel hægt að aðlaga kirkjustarfið að breyttum að­­stæðum án þess að slaka á kenni­setningum. „Við þurfum alltaf að hugsa um boðskapinn og það sem við erum að boða og það reynir á okkar túlkunar­hæfni að túlka biblíutextann í pré­dikunum okkar,“ segir Jónína.

„Við höfum, a.m.k. síðan ég kom til kirkjunnar fyrir átta árum, stöðugt verið að skoða starfið og ná betri tengslum við fólk með t.d. fjölbreyttara helgihaldi, en menningin er ekki eins einsleit og hún var og smekkur fólks mismunandi. Þetta er farvegur sem við þurfum að hafa í huga og höfum boðið upp á fjölbreyttar messur, t.d. djass­messur einu sinni í mánuði, en við þurfum alltaf að vera trú okkar boðskap sem er grundvöllur kirkjustarfsins,“ segir Jón Helgi. „Það skiptir miklu máli fyrir framtíð kirkjunnar að hún sé trú fagnaðarerindinu, boðskap sem alltaf á erindi til okkar.“

Fagnaðarerindið á brýnt erindi núna

Jón Helgi segir kirkjuna og söfnuði ekki hafa tekið mikið þátt í sam­félagsumræðunni og líklega bara flúið hana af ótta við að verða hreinlega skot­in niður á staðnum vegna mikillar dóm­hörku sem væri slæmt því mikilvægt væri að ræða um grundvallaratriði trúarinnar, um að leita sátta, um iðrun og fyrirgefningu. Taldi hann að kirkjan og prestar þurfi að horfa meira til þessara þátta.

Segir hann fagnaðarerindið, þessi boðskapur sem gefur okkur styrk, frið og hvetur okkur til dáða til að standa vörð um réttlætið og sannleikann, gera kirkjuna að því sem hún er og sameina okkur. Það sé þrátt fyrir að við höfum ólíka sýn á pólitík og allt milli himins og jarðar en komum samt saman um þetta sem skapar kirkjuna.

Jónína bendir á að kirkjan nýti þema­messur til að leggja áherslu á ákveðin málefni og nefnir bleika messu sem dæmi, þar sem fenginn er einstaklingur með reynslu af því að hafa fengið krabbamein, til að tjá sig um reynslu sína. Hún nefndi líka umhverfismessu og sagði kirkjuna vera að færa sig nær þessum stóru málum sem skipta verulegu máli og allir hafi skoðanir á.

Áskorun að mæta gagnrýnum sjónarmiðum

Aðspurð um þau áhrif sem mikil gagnrýni hefur á kirkjuna, ekki síst frá trúlausum sagði Jón Helgi að ef sagan væri skoðuð þá væri þetta ekkert nýtt. Sagði hann það kannski ágæta áskorun fyrir kirkjuna að mæta svona sjónar­miðum og svara ágengum spurningum. Taldi hann þó að það væru viss öfl sem ynnu markvisst að því að ýta trúnni út á jaðarinn en sagði kirkjuna ekki hafa brugðist við því, a.m.k. opinberlega.

Sögðu þau hlutverk þjóðkirkju­safn­aðar að vera mjög opinn og er mjög stór. „Það er messa á sunnudaginn, hverjir koma? Það er í sjálfu sér ekkert haldið bókhald um það. Fólk er hvatt til að koma en það er bara opið hús. Þetta er bæði kosturinn og vandi stórs safnaðar. Fólk er ekkert endilega skráð í Þjóðkirkjuna sem nýtir þjónustuna,“ segir Jón Helgi. „Við reynum bara að hvíla dálítið örugg í okkur, það er okkar styrkur, þjóðkirkjusafnaðanna, að við erum alltaf með opið hús, erum má segja með opinn faðm, fólk má koma, það má nýta okkar þjónustu, við veitum sálgæslu sem við erum flest með sérmenntun svo við bjóðum upp á góða þjónustu,“ bætir Jónína við.

Sr. Jónína Ólafsdóttir og sr. Jón Helgi Þórarinsson.

Öflugt starfslið

Þau eru tveir prestar við Hafnar­fjarðarkirkju en auk þeirra eru þau með sr. Sighvat Karlsson til aðstoðar því Jón er í sálmabókarnefnd sem tekur nokk­urn tíma. Svo er organisti í fullu starfi, staðarhaldari í fullu starfi, kirkjuvörður um helgar og nokkrir í hlutastörfum m.a. með barna- og unglingakórana. Þrír leiðtogar eru í hlutastarfi við barnastarfið og æskulýðsfulltrúi í hálfu starfi. Allt í allt um 13 manns að sögn prestanna. Þá er Barbörukórinn laun­aður líka. Um 8.500 manns eru í sókninni.

„Þetta er ágætlega vel rekin kirkja og stendur mjög vel miðað við aðrar kirkjur á landinu og afar vel haldið utan um fjármálin,“ segir Jón Helgi og er greinilega stoltur af sinni kirkju.
Nú var spjallið farið að fara um víðan völl kirkjulegs starfs sem verður að bíða betri tíma svo þeim var þakkað fyrir kaffið og spjallið að sinni.

 

Greinin birtist í 7. tbl. Fjarðarfrétta 23. nóvember sl.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2