Fasteignaþróunarfélagið Klasi óskaði í nóvember 2023 eftir að koma að endurskoðun á deiliskipulagi lóðanna Tjarnarvellir 5 og 9 eða að endurskoðun á deiliskipulagssvæðinu öllu.
Lóðirnar hafa staðið óbyggðar í mjög langan tíma.
Í upphaflegum skipulagsskilmálum fyrir Tjarnarvelli eru markmið deiliskipulagstillögunnar skilgreind sem eftirfarandi:
- Að móta heilsteypta, formfasta og þétta byggð með skýrum götumyndum og skjólgóðum bæjarrýmum sem stuðli að góðri nýtingu lands.
- Að með einföldu umferðarkerfi og skýrt skilgreindum rýmum verði auðratað um hverfið og auðvelt að staðsetja sig miðað við ytra umhverfi.
- Að stilla stærð helgunarsvæða veitukerfa, umferðarmannvirkja og bílastæða í hóf.
Meginhluti svæðisins átti að vera þétt, blönduð byggð skrifstofu- og þjónustubygginga sem eru frá tveimur upp í sex hæðir. Byggðinni var ætlað að mynda samstæða og þétta heild með sterkum bæjarrýmum. Sérstök áhersla var lögð á að allt svæðið innan skipulagsreitsins væri skýrt skilgreint hvað notkun og eignarhald varðar.
Tekið jákvætt í málið
Skipulags- og byggingarráð tók undir umsögn skipulagsfulltrúa um málið og taldi jákvætt að lóðarhafar taki þátt í endurskoðun skipulags á svæðinu.
Nú hefur Klasi formlega óskað eftir að vinna samkomulag með Hafnarfjarðarbæ um
endurskoðun deiliskipulags á Tjarnarvöllum. Var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráð 5. september sl.
Samkomulag myndi innifela tímalínu skipulagsvinnu, hlutverk aðila í vinnslu skipulags og samstarf um val á skipulagsráðgjafa. Að mati Klasa er mikilvægt að hefja vinnu sem fyrst með það að markmiði að tillögur að breytingum geti legið fyrir næstkomandi sumar. Aðilar myndu vinna sameiginlega greiningu á þeim tækifærum og þeim áherslum sem unnið væri eftir.
Hafa fulltrúar Klasa tvisvar kynnt áform sín fyrir skipulags- og byggingaráði, fyrst á fundi ráðsins 21. mars 2024 (ekki 2023 eins og misritast hefur í umsögn skipulagsfulltrúa) og síðan aftur 27. júní 2024.
Í kynningunni 27. júní voru settar fram hugmyndir um að á lóðunum 5 og 9 verði byggðir upp svokallaðir „lífsgæðakjarnar“ með t.a.m. þjónustuíbúðum, hjúkrunarheimili, heilsugæslu og hjúkrunarheimili. Einnig er sýndur möguleiki á því að lóð og byggingarreitur nr. 9 geti stækkað til norð vesturs að bílastæðinu.
Fyrir séð að ekki verði af heildarendurskoðun
Í sumsögn skipulagsfulltrúa segir að vilji hafi verið til þess að deiliskipulag svæðisins verði endurskoðað í heild sinni, en af ýmsum ástæðum sé fyrir séð að ekki verði af því á næstunni. Hins vegar sé enn vilji til þess að svæðið vaxi dafni og byggist upp.
þá segir að fyrirspurnin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjaðar 2013-2025 þar sem ekki er gert ráð fyrir búsetu á svæði M2.
Vilji til að heimil verði búseta í einhverju formi
Þá segir jafnframt í umsögninni sem skipulags- og byggingarráð tók undir: „Í ljósi þess sem hér að fram greinir er mælt með því að Aðalskipulagi Hafnarfjarðar verði breytt á þann veg að búseta í einhverju formi verði heimil á svæðinu þannig að þær hugmyndir sem fyrirspurnin setur fram rúmist innan þess. Ekki er mælt með að deiliskipulagi verði breytt m.t.t. stækkunar lóða að götu/bílastæði, ef af því verður að breyta því þarf það að vera hluti af heildar endurskoðun deiliskipulagsins.“
Tjarnarvellir 1
Samkaup hafði átt lóðina Tjarnarvellir 1 frá upphafi en lóðin er nú í eigu Eikar fasteignafélags. Skv. deiliskipulagsskilmálum er stærsti hluti lóðarinnar ætlaður undir verslun á einni hæð en austasti hlutinn gat verið allt að 5-6 hæðir.
Lóðarhafi hefur óskað eftir að skipta byggingarreitnum í tvennt svo mannvirki geti verið allt að 4 hæðir þar sem áður var heimilt að byggja eina hæð og sex hæðir austast á lóðinni.
Í umsögn skipulagsfulltrúa segir: „Þrátt fyrir að stefnt sé að heildarendurskoðun skipulagssvæðisins er mælt með að lóðarhafa verði heimilað að láta vinna breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Tjarnarvalla 1 m.t.t. fyrirspurnarinnar og í samvinnu við verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa, enda falla framlagðar hugmyndir vel að upphaflegu deiliskipulagi og geta vel samræmst endurskoðuðu þess.“
Frétt í Fjarðarfréttum um miðsvæði Valla má lesa hér.