Sunnudagur, janúar 25, 2026
HeimFréttirEnn hægt að fá nafn sitt í Flensborgarbókina

Enn hægt að fá nafn sitt í Flensborgarbókina

Bókin „Flensborg – stúdentar í 50 ár“, kemur brátt út

Nú fer að styttast í að Flensborgarbókin komi út „Flensborg – stúdentar í 50 ár“.

Þar verður ávarp skólameistara, ágrip af sögu skólans frá 1877 til dagsins í dag og þar skrifa 22 stúdentar, frá ýmsum tímum, minningar sínar úr skólanum.

Hér má lesa upphafið af sögukaflanum.

Fólk getur ennþá gerst áskrifendur að bókinni, sem kostar kr. 7.980, á holar@holabok.is eða í síma 692 8508 og fengið nafn sitt birt á heillaóskaskrá.

Ágrip af sögu Flensborgarskólans

Stofnun og upphaf Flensborgarskóla 1877 til 1882

Segja má að séra Þórarinn Böðvarsson, prófastur að Görðum á Álftanesi, sé faðir Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Hann var fæddur í Gufudal við Breiðafjörð árið 1825 og tók stúdentspróf frá Reykjavíkurskóla 1847. Tveimur árum síðar lauk hann prófi frá Prestaskólanum og vígðist það sama ár aðstoðarprestur föður síns sem þá var prófastur á Melstað í Miðfirði.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn kvæntist Þórunni Jónsdóttur árið 1849. Árið 1854 var honum veitt prestsembætti í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp og 1865 varð hann prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu. Séra Þórarinn og Þórunn fluttust suður árið 1868 ásamt fjórum börnum sínum og hann tók við prestsembætti að Görðum á Álftanesi. Þá náði prestakallið yfir Álftaneshrepp en sóknirnar voru tvær, Garðasókn og Bessastaðasókn. Árið 1872 varð Þórarinn prófastur yfir Kjalarnesprófastsdæmi og gegndi hann því embætti til dauðadags.

Þórarinn var kjörinn alþingismaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1869 og sat samfellt á þingi til ársins 1894. Hann hafði verið varaþingmaður Ísfirðinga frá 1862 til 1868 og tekið allmikinn þátt í félagsmálum þar vestra.

Þórunn Jónsdóttir

Í grein í Andvara árið 1897 lýsir Þórhallur Bjarnarson séra Þórarni Böðvarssyni svo:

Sjera Þórarinn var göfugmannlegur höfðingi í sjón, fríður og svipmikill, hár og þrekinn, rjóður í kinnum og dökkur á hár fram til efstu ára. Fremur var hann þurr og fámæltur í fyrstu kynningu, en ræðinn og gamansamur við kunnuga; heimilisfaðir var hann hinn bezti og ágætur heim að sækja. Þótt hann væri þungur á bárunni, kenndu andstæðingar hans í landsmálum eigi óvildar í einkaskiptum; hann var að upplagi friðsamur og sáttfús, eða hafði tamið sjer það. Alla æfi var hann hinn mesti hófs- og stillingarmaður, þróttmikill til líkama og sálar.

Um miðja 19. öld höfðu prestar eftirlitsskyldu með menntunarmálum í sinni sókn og laut hún einkum að fræðslu barna. Séra Þórarinn hafði mikinn áhuga á alþýðufræðslu og lagði því mikla áherslu á að sinna þessari hlið starfsins. Á þessum tíma var mikil fátækt í landinu og almennt menntunarleysi og í bréfi til stiftsyfirvalda árið 1869 segir Þórarinn að í Garðaprestakalli sé „rúmur þriðjungur barna á aldrinum 10 – 14 ára … ólæs og sé ástandið einna verst í Hafnarfirði.“

Í Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði verið til sjóður síðan 1759, Thorkillii-sjóðurinn, sem var dánargjöf Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors en hann hafði það hlutverk að styrkja menntun fátækra barna í Kjalarnesþingi. Fyrir fé úr þessum sjóði hafði barnaskólinn að Hausastöðum á Álftanesi verið rekinn á árunum 1792 til 1812. Sjóðurinn hafði einnig verið notaður til að létta undir fátækraframfærslu í hreppunum. Að þessu leyti stóð Gullbringu- og Kjósarsýsla betur að vígi en aðrar sýslur.

Árið 1869 andaðist Böðvar, elsti sonur séra Þórarins og Þórunnar. Hann var nemandi í Lærða skólanum í Reykjavík þegar hann lést, aðeins 19 ára gamall. Böðvar var mikill efnispiltur og við hann höfðu verið bundnar miklar vonir. Í minningargrein um Böðvar eftir Jón Þorkelsson rektor segir meðal annars:

Böðvar var mikið vel gáfaður, enda gékk honum skólanámið mjög vel. Hann var ávalt með þeim piltum, er efstir sátu í þeim bekk, er hann var í … Það eru engar ýkjur, þótt sagt sé, að hann hafi verið einhver hinn bezti og efnilegasti af lærisveinum skólans; hann var í allri breytni sinni sannkölluð fyrirmynd skólabræðra sinna, … Hann var einstaklega siðprúður, iðinn og reglusamur, hógvær og stiltur, og eins og hann var vinsæll og elskaður af öllum skólabræðrum sínum og öllum þeim, er við hann kyntust, eins ávann hann sér virðing og ást allra kennara sinna, er hann aldrei stygði með nokkru orði eða atviki.

Fráfall Böðvars var foreldrum hans mikið áfall og fljótlega eftir andlát hans fór að þróast með þeim sú hugmynd að beita sér fyrir stofnun skóla í minningu hans. Til að svo mætti verða keyptu þau jörðina Hvaleyri sumarið 1870 og tilkynntu jafnframt að þau væri tilbúin til að gefa jörðina undir skóla. Nokkrar umræður urðu í kjölfarið um fyrirhugaðan Hvaleyrarskóla. Málið var meðal annars tekið upp á Þingvallafundi 1874 og á Alþingi 1875 og 1877. Leiddi sú umræða til þess að fyrsti gagnfræðaskólinn á landinu, Möðruvallaskóli í Hörgárdal, var settur á stofn. Tillaga um stofnun gagnfræðaskóla á Hvaleyri var felld. Til að halda hugmyndinni um skóla í Hafnarfirði enn frekar á loft keyptu séra Þórarinn og Þórunn húseignina Flensborg í Hafnarfirði af danska stórkaupmanninum P. C. Knudtzon og syni hans N. H. Knudtzon sumarið 1876. Flensborg hafði verið verslunarstaður frá síðari hluta 18. aldar og dró nafn sitt af borginni Flensborg sem þá tilheyrði Danmörku. Þaðan höfðu kaupmennirnir sem stofnuðu verslunina komið. Verslunarhúsið var að öllum líkindum byggt 1816-1817 en verslunin lagðist af 1875. Þess má geta að borgin Flensborg hét Flensaburg á 12. öld og er heiti hennar dregið af ánni Flenså. Þar var þá reist virki (burg á þýsku). Borgarheitið merkir því Virkið við ána Flenså.

Þann 10. ágúst 1877 gáfu Þórarinn og Þórunn Flensborgarhúsið ásamt Hvaleyrarjörðinni til að stofna þar alþýðuskóla. Þau gerðu þetta til að „heiðra þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2