fbpx
Laugardagur, desember 2, 2023
HeimFréttirDvergsreitur er tilnefndur til Hönnunarverðlauna Íslands sem staður ársins

Dvergsreitur er tilnefndur til Hönnunarverðlauna Íslands sem staður ársins

Dvergsreitur, Lækjargötu 2, eftir arkitektastofurnar KRADS og TRÍPÓLÍ, ásamt Landmótun, er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.

Var þetta tilkynnt sl. þriðjudag en Edda, hús íslenskunnar og Hlöðuberg hafa einnig verið tilnefnd í sama flokki. Eru tilnefningar dómnefndar nú birtar daglega.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Dvergsreitur, sem er blönduð byggð í hjarta Hafnarfjarðar sem nýverið var lokið við byggingu á, sé höfundum sínum, verkkaupa og sveitarfélaginu, til mikils sóma og þar er þétting byggðar vel heppnuð.

Þar segir jafnframt: „Í verkefninu er fallega unnið með umfang og form nærliggjandi húsa og haganlega sköpuð rými eru á milli bygginganna, þrátt fyrir mikinn þéttleika. Efnisval er nútímalegt, en vísar í nærliggjandi hús og minnkar sýnilega stærðarskölun með markvissri notkun breytileika í efnisvali. Þegar betur er að gáð er leikur að formum húsanna og jafnvel árekstur, sem gefur þeim kæruleysislegt, ef ekki hreinlega gamansamt yfirbragð.

Áður stóðu verksmiðjuhús Dvergsins á reitnum. Lögð var áhersla á að nýbyggingar á lóðinni væru hannaðar með þeim hætti að þær féllu sem best að fíngerðara útliti nærliggjandi byggðar. Markmið hönnunarinnar var að skapa eins konar þorpsanda, ramma fyrir hlýlegt mannlíf, sem bæði íbúar sem hafa eigið viðverusvæði í skjólgóðum húsagarði fjær götunum og gestir sem sækja verslun og þjónustu á jarðhæðunum, geta notið.“

KRADS arkitektastofa er með aðsetur á Íslandi og Danmörku, leidd af arkitektunum Kristjáni Erni Kjartanssyni og Kristjáni Eggertssyni.

TRÍPÓLÍ arkitektastofa var stofnuð árið 2012 og eru eigendur hennar arkitektarnir Andri Gunnar Lyngberg Andrésson og Guðni Valberg.

Landmótun er teiknistofa landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga stofnuð árið 1994.

Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2023 verður í Grósku þann 9. nóvember næstkomandi.

Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverðlaunum Íslands er ætlað að varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk, Staður og Vara.

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.

Í dómnefnd eru: Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, Halldór Eiríksson, arkitekt og einn eigandi atkitektastofunnar T.ark, Eva María Árnadóttir, fatahönnuður og sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar við Listaháskóla Íslands, Erling Jóhannesson, gullsmiður, leikari og leikstjóri, Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður og hönnunarstjóri á Brandenburg, Guðrún Sóley Gestsdóttir, dagskrárgerðarmaður á RÚV, Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla – og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins og Tor Inge Hjemdal, framkvæmdastjóri DOGA, miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Noregi.

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Myndefni: Claudio Parada Nunes og Marino Thorlacius.

Ummæli

Ummæli

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjustu greinar

H2