„COVID opnaði huga fólks fyrir búningaheiminum. Það sá myndbönd á netinu og hafði tíma til að sauma sér búninga,“ segir Unnur Helga Möller, verkefnastjóri viðburða á Bókasafni Hafnarfjarðar, sem heldur utan um búninga- og leikjahátíðina Heimar og himingeimar.
Hátíðin er haldin dagana 29.-31. ágúst. Þetta er þriggja daga skemmtun með yfir fimmtán smiðjum og viðburðum. Hægt verður að upplifa og taka þátt í þremur heimum. Dagskráin er troðfull og má fullyrða að þetta sé þegar orðin stærsta búningahátíð landsins.
„Fólk var fyrir faraldurinn svo upptekið að halda í raunveruleikann. Það fattaði hins vegar þegar COVID-skall á að það þarf að skemmta sér, njóta tímans og taka hlutunum ekki of alvarlega. Vera drull um hvað öðrum finnst,“ segir Unnur. „Þetta er ein af jákvæðu eftirköstum COVID,“ bætir hún við.
Unnur er undirbúin fyrir að fá þúsundir gesta á hátíðina. Í fyrra komu rétt tæplega 4000 og hún sló í gegn. „Við bjuggumst við þúsund manns,“ segir hún. Hátíðin verður enn veglegri í ár. Enn fleiri taka þátt.
- Vélmennaveiðar
- Bardagasýningar
- Boffer-smiðja
- Marie Antoinette fer í búninginn
- Risabrúður
- Kynningar á handverki; leðurvinnsla, brynjugerð, saumaskapur og skrautskrift.
- Cosplay-keppni með alþjóðlegum dómurum
- 501. herdeildin
Nánar: https://himingeimar.is/