Á viðurkenningahátíð sem haldin var í Íþróttahúsinu við Strandgötu í dag voru Axel Bóasson kylfingur úr Keili útnefndur íþróttakarl Hafnarfjarðar og Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar.

Er þetta annað árið í röð sem Axel hlýtur þennan heiður og sjöunda árið í röð sem Hrafnhildur hlýtur þennan heiður.
Axel Bóasson er meðal bestu kylfinga á Íslandi og lék í ár á Nordic tour sem atvinnumaður í golfi á sínu fyrsta ári og hélt sæti sínu í mótaröðinni. Axel varð klúbbmeistari Keilis, sigraði á Borgunarmótinu, Securitasmótinu, á Eimskipsmótaröðinni, varð stigameistari Golfsambands Íslands og í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Hann var með meðalskor upp á 69 högg hér heima sem verður að teljast ótrúlega góður árangur. Til samanburðar er meðalskorið á PGA mótaröðinni 71,3 högg og lægsta meðalskorið 69,1 högg. Axel tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta á árinu.
Hrafnhildur Lúthersdóttir er sundkona í bringusundi og fjórsundi. Margfaldur Íslandsmeistari, Íslandsmethafi og landsliðskona í sundi. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramóti í 50 m laug á árinu þar sem hún vann tvenn silfurverðlaun fyrir 50 m bringusund og 100 m bringusund og bronsverðlaun fyrir 200 m bringusund. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar og náði þeim frábæra árangri að verða sjötta í 100 m bringusundi og í 11. sæti í 200 m bringusundi. Árangur Hrafnhildar er besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikunum. Í desember keppti Hrafnhildur á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 m laug í Windsor í Kanada og setti Íslandsmet í hverju sundi sem hún synti, samtals sjö met. Annars var árangur hennar í einstaklingsgreinum á mótinu eftirfarandi; 50 m bringusund 13. sæti, 100 m bringusund 14. sæti, 100 m fjórsund 11. sæti.
Frjálsíþróttalið FH íþróttalið ársins
Karla- og kvennalið FH í frjálsum íþróttum var valið íþróttalið ársins. Liðið er Íslandsmeistari félagsliða í frjálsum íþróttum utanhúss og bikarmeistari í frjálsum íþróttum innanhúss og utanhúss. Áttu liðsmenn góðu gengi að fagna á alþjóðlegum mótum á árinu. Átta landsliðsmenn kepptu á Smáþjóðameistaramóti landsliða á Möltu, einn keppandi keppti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Amsterdam í Hollandi, þrír keppendur kepptu á Norðurlandamóti í frjálsíþróttum innanhúss, auk þess tóku liðsmenn þátt í fjölda verkefna í unglinga- og ungmennaflokkum erlendis með góðum árangri.