Helgi Hinriksson nýr framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar

Helgi Hinriksson og nýtt húsnæði Köfunarþjónustunnar við Óseyrarbraut.

Helgi Hinriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar ehf. og tók hann við starfinu um áramótin.

Helgi starfaði sem Kerfisstjóri hjá Vodafone, sölustjóri Compressport í Norður-Evrópu með aðsetur í Svíþjóð, verkefnastjóri skýjalausna hjá Advania og nú síðastliðið ár sem verkefnastjóri hjá Köfunarþjónustunni. Helgi var framkvæmdastjóri og einn eiganda IronViking ehf.  Helgi er með köfunarréttindi frá Skotlandi, sérfræðigráður í Microsoftlausnum og hefur lokið fjölda endurmenntunarnámskeiða á sviði verkefnastjórnunar og tölvufræði. Helgi er giftur Bryndísi F. Guðmundsdóttur og eiga þau 3 syni.

Fyrirtækið flutti í nýbyggingu að Óseyrarbraut 27 í febrúar 2019.

Köfunarþjónustan er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi og hefur áralanga reynslu á sviði köfunar, er vel tækjum búið og hefur yfir að ráða hópi reyndra atvinnukafara.

Fyrirtækið skiptist í þrjár deildir köfunardeild, sjó-mælingadeild og sérverkefnadeild sem sér meðal annars um uppsetningu á snjóflóðavörnum og fallvörnum svo eitthvað sé nefnt.

12 starfsemenn, af þremur þjóðernum, eru fastráðnir hjá fyrirtækinu en kallaðir eru til auka starfsmenn við stærri verkefni.

Köfunarþjónustan tekur að sér stór sem smá köfunarverkefni í sjó, vötnum og uppistöðulónum ásamt því að kafa í allskonar tanka, brunna og dæluhús. Köfunarþjónustan er viðurkennd af helstu flokkunarfélögum heims og veitir þjónustu, öllum erlendum skipum sem eiga viðkomu hér á landi.

Tækjakostur fyrirtækisins er með því besta sem hægt er að bjóða upp á í köfunarverkefnum.  Fyrirtækið er með nokkrar færanlegar köfunarstjórnstöðvar sem hægt er að flytja á milli staða með skömmum fyrirvara hvert á land sem er, loftdælur sem flytja köfurum loft til að þeir geti lengt veru sína í neðansjávarverkefnum, trygg fjarskipti við stjórnstöð og afþrýstiklefar tryggja skilvirkni og öryggi.

Meðal verkefna sem félagið sinnir er þjónusta við sjávarútveginn sem felst m.a. í því að skera aðskotahluti úr skipsskrúfum, skipta um fórnarskaut og botnstykki dýptarmæla, botnhreinsun skipa, póleringu skipsskrúfa og suðuvinnu svo eitthvað sé nefnt.

Köfunarþjónustan býður upp á margvíslega þjónustu fyrir hafnir landsins.  Viðgerðir á bryggjuþilum og uppsetning fórnarskauta á þau til að hindra tæringu, hreinsun hafna og dýptarmælingar eru meðal helstu verkefna.

Ef óhöpp verða, þá þarf oft að bregðast hratt við til að bjarga verðmætum og er Köfunarþjónustan því með vakt allan sólarhringinn og reiðubúin að takast á við ný verkefni með skömmum fyrirvara.

Þessa vikuna er sérfræðingur, David Keats, að þjálfa kafara fyrirtækisins í neðansjávar rafsuðu. Hefur fyrirtækið komið sér upp inni-æfingalaug þar sem kafararnir leysa ýmis verkefni og taka próf í lokin og eftir námskeiðið eru allir okkar kafarar vottaðir neðansjávarrafsuðumenn.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here