fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirAtvinnulífFiskbúðin í sömu ætt í 60 ár - Afmæli í dag

Fiskbúðin í sömu ætt í 60 ár – Afmæli í dag

Þverskorin ýsa ekki lengur algeng á borði Íslendinga – Terta í búðinni á afmælisdeginum

Þann 5. desember 1959 stofnaði Hallgrímur Steingrímsson Fiskbúð að Reykjavíkurvegi 3 en húsið stóð við Kirkjuveg. Steingrímur, faðir Hall­gríms, var kaupmaður og átti hann hús­ið og á lóðinni var góð aðstaða bakatil.

Fiskbúðin Reykjavíkurvegi en húsið stóð í raun við Kirkjuveg.

Hallgrímur hafði verið vélstjóri á ýmsum bátum ásamt því að gera út bát og vera með fiskverkun. Hann langaði að vera sjálfs síns herra og sá að hann hafði til þess aðstöðu og ákvað að stofna fiskbúð, þrátt fyrir að þá væru sex fiskbúðir fyrir í Hafnarfirði.
Byggði hann húsnæði þarna á lóðinni og stofnaði Fiskbúð Hadda. Árið 1964 kom svo konan hans, Ágústa Hannes­dóttir, frá Núpsstað, með í reksturinn og ráku þau verslunina við Kirkjuveginn til 1985.

Um jólin 1985 komu þau Hall­grímur og Ágústa að máli við Ágúst Tómasson, systurson Ágústu, um að taka við fisk­búðinni í eitt ár, þar sem hann væri á leiðinni í hjartaaðgerð til Englands. Þau hjónin Ágúst og Elísabet Þórdís Guð­mundsdóttir tóku við rekstrinum í janúar 1986 en Hallgrímur hætti alveg en kom við og við í búðina til að þess aðeins að finna lyktina.

Haraldur Steingrímsson í gömlu fiskbúðinni.

Börn og barnabörn þeirra Ágústar og Dísu hafa öll komið við sögu fisk­búðarinnar. Tómas, elsti, sonurinn fór að venja komur sína í fiskbúðina strax 12 ára og árið 2011 kom hann inn í reksturinn með foreldrum sínum. Þá hefur hans sonur, Ágúst Hjalti sem er 17 ára, hjálpað til í búðinni með skóla og þar með hafa fjórar kynslóðir komið að rekstri Fiskbúðarinnar frá því hún var stofnuð.

Fiskbúðin flutti í núverandi húsnæði að Trönuhrauni 9, 30. september 2009.

Á þeim tíma sem Ágúst tók við búðinni var ekki alltaf gott aðgengi að nýjum fiski. Þurfti hann að hafa mikið fyrir því að ná í fisk og ók hann sjálfur suður með sjó, í Þorlákshöfn og stundum alla leið vestur á Snæfellsnes til að ná í fisk. Keypti hann þá fisk beint af útgerðum. Það var því mikil breyting þegar Fiskmarkaðurinn var stofnaður og auðveldaði hann öll innkaup á fiski. Átti Ágúst hlutabréf nr. 1 í Fiskmarkaði Hafn­ar­fjarðar sem stofnaður var árið 1986.

Feðgarnir í búðinni við Trönuhraun. Ljósmynd: Guðni Gíslason

Ágúst segir neysluvenjur hafa breyst mikið á þessum 60 árum. Á fyrstu árunum var salan mest í þverskorinni ýsu, ýsuflökum, flöttum saltfiski og stöku sinnum lúðu. Nú er mesta salan í alls konar tilbúnum fiskréttum og humarsúpu!

Viðskiptvinum verður boðið upp á kaffi og tertu á afmælisdaginn í dag fimmtudaginn, 5. desember, opið er kl. 9-18.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2