Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á stjórnvöld að tryggja samkeppnishæfni Íslands til að tryggja starfsemi álvers Rio Tinto

Bæjarstjórnin samhuga um ályktunina

Horft að álverinu í Straumsvík. Ljósm.: Guðni Gíslason

Málefni álvers Rio Tinto í Straumsvík var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem nú stendur yfir.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundinum ályktun þar sem lýst er áhyggjum af óvissunni sem nú er um álver Rio Tinto í Straumsvík.

Jafnframt skorar bæjarstjórnin á stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi að vinna að því að gera Ísland samkeppnishæft fyrir þá sem nýta umhverfisvæna orku.

Er bókunin eftirfarandi:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir yfir áhyggjum af þeirri óvissu sem hefur skapast um starfsemi álversins í Straumsvík en þar er um að ræða rótgróið fyrirtæki sem margir Hafnfirðingar byggja afkomu sína á. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á stjórnvöld og aðra hlutaðeigeigandi að vinna að því að Ísland verði samkeppnishæft fyrir fyrirtæki sem nýta umhverfisvæna orku fyrir starfsemi sína.“

Í umræðu um raforkuverð og samkeppnishæfni Íslands hefur verið fullyrt að raforkuveðið sé samkeppnishæft en bent hefur verið á að enginn ávinningur virðist vera fyrir álfyrirtæki að nota umhverfisvæna orku því þau geti ekki selt álið sem þannig er framleitt á hærra verði.

Ummæli

Ummæli