Árshátíð starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar í skugga verksfallsboðunar og neyðarstigs almannavarna

Verkfallsaðgerðir 660 starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar hefjast á mánudag

Árshátíð Hafnarfjarðarbæjar verður haldin á morgun í íþrótthúsinu að Ásvöllum og ekki stendur til að fresta henni ef marka má færslu bæjarstjóra. Bæjarstjóri segir m.a.: „Við höfum verið í beinu sambandi við stjórnstöð almannavarna og alla helstu sérfræðinga síðustu dagaog samkvæmt nýjustu skilaboðum frá þeim þá er engin ástæða til annars en að pússa skóna, strauja gallann og gíra sig upp í enn meiri gleði.“

Verður árshátíðin haldin í skugga boðast verkfalls um 660 starfsmanna bæjarins sem hefja verkfallsaðgerðir á mánudag og neyðarstigs almannavarna sem lýst var yfir nú í eftirmiðdaginn. Búist er við um 1.500 manns á árshátíðina.

Móðir langveiks barns hefur áhyggjur

Bæjarbúi sem á langveikt barn segist ekki lítast á að árshátíðin verði haldin. Segist ekki lítast á að starfsfólk leikskóla og grunnskóla komi saman og geti borið smit í börnin. Segir hún mörg fyrirtæki hafi frestað árshátíðum og hafi hún vonast til að Hafnarfjarðarbær gerði það líka.

Verkfall hefst á mánudag verði ekki búið að semja

Fyrirhugað verkfall félagsmanna hjá Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar og BSRB hefst á mánudaginn verði ekki búið að semja.

Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, sem staddur er í Karphúsinu, segir að samninganefndirnar séu að störfum og muni reyna um helgina að semja. Aðspurður segist hann vera bjartsýnn að eðlisfari og vonast eftir samningi en því miður væru mörg ljón á veginum.

Tvískiptar verkfallsaðgerðir

Verkfallsaðgerðir félagsins verða tvískiptar. Annars vegar er það ótímabundið verkfall hjá þeim félagsmönnum sem starfa hjá frístundaheimilum bæjarins.

Hins vegar verða eftirfarandi verkfallsaðgerðir:

 • Tveggja sólarhringa allsherjarverkfall 9. og 10. mars.
 • Tveggja sólarhringa allsherjarverkfall 17. og 18. mars
 • Eins sólarhrings allsherjarverkfall 24. mars
 • Tveggja sólarhringa allsherjarverkfall 31. mars og 1. apríl
 • Ótímabundið verkfall allra félagsmanna hjá Hafnarfjarðarbæ frá 15. apríl.

Félagsmenn sem sinna frístund fyrir 1. – 4. bekk í grunnskólum, félagsstarfi fyrir börn og ungmenni í 5.-10. bekk og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni með fötlun í Klettinum fara því í ótímabundið verkfall frá og með mánudeginum 9. mars.

Verkfallið snertir um 660 starfsmenn hjá Hafnarfjarðarbæ. Komi til verkfalls verða áhrif á þjónustu sveitarfélagsins eftirfarandi.

Áhrif á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar frá og með 9. mars 

 • Grunnskólar – frístund. Öll frístundaþjónusta fyrir nemendur í 1.-4. bekk, bæði fyrir og eftir skóla, fellur niður ótímabundið. Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður
 • Grunnskólar – félagsstarf. Allt félagsstarf fyrir nemendur í 5.-10. bekk fellur niður ótímabundið
 • Kletturinn – tómstundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun. Allt félagsstarf í frístundaklúbbnum Klettinum fellur niður ótímabundið
 • Ungmennahúsið Hamarinn – allt félagsstarf fellur niður ótímabundið

Áhrif á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar eftirtalda daga

9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

 • Þjónustuver – þjónustuveri og þar með Ráðhúsi Hafnarfjarðar verður lokað
 • Sundlaugar – öllum sundlaugum Hafnarfjarðarbæjar verður lokað
 • Hafnarborg – sýningarsalir verða lokaðir
 • Bókasafn Hafnarfjarðar – opið frá kl. 10-17 með fyrirvara um skerta þjónustu og áhrif á opnunartíma sem þá verður auglýst sérstaklega
 • Stjórnsýsla að Strandgötu, Linnetsstíg og Norðurhellu – starfsmenn víða um stjórnkerfið fara í verkföll þessa tilteknu daga og því verður þjónusta sviða að hluta til skert
 • Leikskólar – skert þjónusta í fimm leikskólum. Verkfall nær til nokkurra starfsmanna í leikskólunum – þar sem þeir eru verða börn send heim og tilkynning þess efnis send til foreldra.
 • Grunnskólar – hefðbundið skólastarf. Nemendur grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar mæta til kennslu a.m.k. fyrstu tvær kennslustundir dagsins á mánudag og þriðjudag. Nánari tilhögun og áhrif á skólastarfið er kynnt sérstaklega í hverjum skóla fyrir sig
 • Félagsstarf eldri borgara – lokað og engin starfsemi í Hraunseli, Hjallabraut og við Sólvangsveg
 • Vinaskjól – lokað og engin starfsemi
 • Geitungar – lokað og engin starfsemi
 • Lækur – lokað og engin starfsemi
 • Skammtímavistun í Hnotubergi – lokað og engin starfsemi
 • Hæfingarstöðin Bæjarhrauni – lokað og engin starfsemi
 • Þróunar- og tölvudeild ­– skert þjónusta til skóla og stofnana Hafnarfjarðarbæjar

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here