fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirAtvinnulíf2814 umsóknir í 248 starf hjá Hafnarfjarðarbæ

2814 umsóknir í 248 starf hjá Hafnarfjarðarbæ

Mikil ásókn í öll sérfræðistörf segir Guðrún Þorsteinsdóttir mannauðsstjóri

Fastráðnir starfsmenn hjá Hafnarfjarðarkaupstað eru 2062 og starfa þeir á 70 starfsstöðvum víðsvegar um bæinn að sögn Guðrúnar Þorsteinssonar mannauðsstjóra hjá Hafnarfjarðarbæ. Yfir sumartímann þá eykst starfsmannafjöldinn umtalsvert en bætast við um 1000 til viðbótar. Yfir sumartímann eru því starfandi rúmlega 3.000 einstaklingar hjá sveitarfélaginu.

Menntunarstig umsækjenda fer hækkandi

Það er mikil aðsókn í öll sérfræðistörf, segir Guðrún sem sjálf kom til starfa hjá Hafnarfjarðarbæ 1. október sl. „Nýlega höfum við ráðið til okkar sviðsstjóra og starfsfólk í launadeild og bókhald og erum að vinna að ráðningu á sérfræðingi í BRÚNA (Barn | Ráðgjöf | Úrræði) sem er tiltölulega ný þjónusta innan sveitarfélagsins“. Segir hún áhugann fyrir öllum þessum störfum mikinn, umsóknir velti á tugum og valið oft erfitt.

„Menntunarstig umsækjanda er almennt að hækka og áhugi fyrir því að starfa innan sveitarfélaga virðist vera að aukast. Stór hluti okkar starfsfólks vinnur innan skólasamfélagsins í Hafnarfirði og því miður þá hefur fagmenntuðum í leikskólum og grunnskólum heilt yfir á Íslandi farið fækkandi eða fjöldinn í það minnsta staðið í stað. Það er landlægt vandamál sem vonandi verður upprætt með öllum þeim aðgerðum sem meðal annars eru í gangi hjá Menntamálaráðuneytinu þessa dagana, allavega hefur aðsókn í fagnám ekki verið meiri síðustu ár. Við höfum einnig gert ýmislegt til að laða fagmenntaða í skólana okkar og það hefur alveg verið að skila sér. Þannig er t.a.m. starfandi hjá okkur hópur af fólki sem er í starfi samhliða fagnámi og fær aðstoð til þess. Eins höfum við verið að hvetja þá sem hafa starfað án fagmenntunar árum saman til þess að sækja sér fagmenntun við hæfi og þannig hefur opnast spennandi tækifæri fyrir marga. Þessar aðgerðir og fleiri eru afrakstur samvinnu og samtals starfshópa um bættar starfsaðstæður bæði innan leik- og grunnskólanna í Hafnarfirði,“ segir Guðrún.

Um 20% fleiri umsóknir á milli ára

„Í ár höfum við auglýst 248 laus störf og á sama tíma í fyrra voru auglýst störf 271.  Í heild hafa 2814 umsóknir borist í þessi 248 störf sem við höfum auglýst það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra höfðu 2.349 umsóknir borist í þau 271 störf sem auglýst höfðu verið. Fjölgun umsókna er því 465 á milli ára eða um 20% fleiri umsóknir. Árið 2016 voru umsóknirnar 2.031 og 2017 voru þær 2.287. Sem sagt vaxandi þróun í fjölda umsókna síðustu ár þó svo að fjöldi starfa hafi ekki endilega aukist. Þannig eru 11 umsóknir um hvert auglýst starf í ár og 9 umsóknir um hvert auglýst starf árin 2017 og 2018. Þetta gefur ákveðin skilaboð.“

Hafnarfjörður. © Guðni Gíslason

Um 1.000 manns í sumarstörfum

Það eru rétt um 1000 einstaklingar í sumarstörfum hjá Hafnarfjarðarbæ. Rétt tæplega 700 ungmenni á aldrinum 14-16 ára sem eru um 63% af þessum aldurshóp í Hafnarfirði að sögn Guðrúnar. „Þessi hópur sinnir fjölbreyttum verkefnum, skiptast í almenna vinnuhópa, umhverfishóp, listahóp, jafningjafræðslu og aðstoð á íþrótta- og leikjanámskeiðum hjá íþróttafélögum. Svo eru um 300 einstaklingar 17 ára eldri einnig að vinna hjá okkur í sumar í verkefnum sem snúa m.a. að íþróttafélögunum, viðhaldsverkefnum og garðyrkju,“ segir Guðrún.

Hvað telur þú að valdi þessum aukna áhuga?

„Það er örugglega margt sem spilar hér inn í m.a. staða á atvinnumarkaði og þær sviptingar sem hafa orðið á síðustu mánuðum. Ég hef það líka á tilfinningunni að þeir þættir sem umsækjendur horfa í séu orðnir víðtækari en bara kaup og kjör. Þannig sé fólk í auknu mæli farið að horfa í störf í heimabyggð eða í nærliggjandi sveitarfélagi enda mikill kostur að þurfa ekki að ferðast langar leiðir til og frá vinnu, fríðindi, fjölbreytileikann og reynsluna sem hægt er að öðlast í starfi fyrir sveitarfélag. Verkefni sveitarfélaga eru skapandi og skemmtileg og ná þannig til ýmissar þjónustu skipulagsmála, menningu og lista og fjölbreyttra starfa með börnum, unglingum, fjölskyldum, einstaklingum, öldruðum og fötluðu fólki.

Nýlega var ákveðið að allir fastráðnir fá frítt í sund í sundlaugum Hafnarfjarðar og svo erum við búin að vera með líkamsræktarstyrki um nokkurra ára skeið. Þannig er líka hægt að gera samgöngusamning við vinnustaðinn svo það er margt í boði á okkar góða vinnustað. Síðan hefur Hafnarfjarðarbær bara heilt yfir verið í vexti á öllum sviðum; fleiri íbúar, fleiri fyrirtæki og almennt meira í boði.

Litli og vinalegi Hafnarfjörður er alls ekki svo lítill lengur en við náum sem betur fer að halda vinalega yfirbragðinu og það finnst fólki líka heillandi. Að vera virkir þátttakendur í því að skapa og viðhalda þessum einstaka bæjaranda sem bærinn býr yfir,“ segir Guðrún Þorsteinsdóttir í samtali við Fjarðarfréttir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2