Átak gegn kynbundnu ofbeldi

16 daga átak Soroptimista gegn kynbundnu ofbeldi

Soroptimistar um allan heim standa fyrir 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi 25. nóvember til 10. desember. Þetta er í þrítugasta og fyrsta skiptið sem Soroptimistar hefja slíkt átak á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum.
Soroptimistar slást í för með um sex þúsund samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með slagorðinu #roðagyllumheiminn eða #orangetheworld. Roðagyllti liturinn er litur átaksins og táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum. Átakið stendur til 10. desember en sá dagur er alþjóðlegur mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og jafnframt dagur Soroptimista.

Markmið 16 daga átaksins er að beina athyglinni að alvarleika kyn­bundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldi verði stöðvað. Til þess þarf vitundarvakningu. Ein af hverjum þremur konum hefur verið beitt ofbeldi á lífsleiðinni og er það eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heimi.

Nærri 140 konur eru myrtar á hverj­um degi af nánum fjölskyldu­meðlimi. Um 15 milljónir núlifandi unglings­stúlkna, 15-19 ára, hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Konur eru 72 prósent allra þeirra í heiminum sem hneppt eru í mansal og kynlífs­þrælkun. 200 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa verið limlestar á kynfærum. Á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband.

Sú hefð hefur skapast að ákveðið málefni er í brennidepli ár hvert. Áhersla íslenskra Soroptimista mun að þessu sinni opna vitundarvakningu um að allir þekki rauðu ljósin í ofbeldis­sambandi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða stafrænt ofbeldi.

Ýmislegt verður gert þessa 16 daga til að beina athygli að ofbeldi gegn konum. Byggingar í heimabyggð klúbba verða lýstar upp í roðagylltum lit.
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það markmið að stuðla að jákvæðri heimsmynd þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi. Soroptimistar sem eru um 600 talsins í nítján klúbbum um allt land segja nei við kynbundnu ofbeldi.

Ummæli

Ummæli