fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFrá ritstjóraRitstjórnarpistill 21. desember 2021

Ritstjórnarpistill 21. desember 2021

Þegar bæjarfulltrúar eru í fullu vel launuðu starfi við að vera bæjarfulltrúar getur verið erfitt að greina mun á stjórnmálamanni og embættismanni. Ekki síst þegar bæjarstjórn og ráð eru að fjalla um bein framkvæmdarmál og útfærslu í stað þess að halda sig betur við stefnumótun í málefnum bæjarins og að setja ramma um starfsemina.

Laun bæjarfulltrúa eru mjög há ef borið er saman við meðallaun bæjarfulltrúa í Danmörku þar sem að jafnaði væri 21 fulltrúi bæjarbúa í bæjarstjórn í bæjarfélagi af svipaðri stærð og Hafnarfjörður er. Gjarnan er fundað síðdegis enda reiknað með að fólk sé í annarri vinnu og málefnum er vel dreift á milli bæjarfulltrúa. Í Hafnarfirði eru 11 bæjarfulltrúar og um þriðjungur þeirra hafa fulla atvinnu af því að vera bæjarfulltrúar ásamt því sem því fylgir og ekki síst í flokkum sem mynda meirihluta og sitja sem formenn í ýmsum ráðum.

Hvergi er reyndar gert ráð fyrir að myndaðir séu meirihluti og minnihluti enda kjósa bæjarbúar 11 fulltrúa sína til að fara með stjórn bæjarins næstu 4 árin. Það þætti eflaust undarlegt ef þetta væri hefðin í fyrirtækjum og félögum.

Bæjarfulltrúar eru fulltrúar bæjarbúa og mikilvægt að halda bæjarbúum vel upplýstum svo þeir geti tekið afstöðu til mála og ekki síst til að taka afstöðu þegar kemur að næstu kosningum. Því miður hefur ekki tekist vel til hér í Hafnarfirði og hafi einhver t.d. reynt að fylgjast með gerð fjárhagsáætlunar þá áttar sá sig á því hvað átt er við. Fundargerð bæjarstjórnarfunda er með þeim hætti að erfitt er jafnvel að sjá hvað hefur verið rætt á fundinum og jafnvel einföld betri textauppsetning gætti bætt þar verulega um. Engin ástæða er að álíta að ætlunin sé að fela eitthvað en óskýrar og ómarkvissar fundargerðir eru einkennandi og virðist enginn metnaður vera til að bæta þar um.

Besta nýlega dæmið um upplýsingaskort er gerð nýs deiliskipulags fyrir vesturbæinn þar sem 37 skjöl fylgdu með kynningunni til íbúa sem eflaust féllust hendur enda í raun lítt upplýst um mikilvægi hvers skjals fyrir sig. Verra var þó að það láðist að kynna opinberlega að gefa átti heimild í deiliskipulagi til að fjarlægja heila húsaröð við Reykjavíkurveginn þó finna mætti texta um það á bls. 50 í 62 síðna greinargerð. Svona gerir maður ekki. Svo bíta menn höfuðið af skömminni og reyna að kenna arkitektum um. Það segir allt um það hversu vel bæjarfulltrúar lesa eigin samþykktir!

En nú eru jól framundan og bæjarstjórnarkosningar að vori. Það er vonandi að hæfileikaríkt fólk með metnað fyrir bænum okkar sýni áhuga á að bjóða sig fram til starfa.

Auglýsendum og samstarfsfólki þakka ég samstarfið, hvatninguna og stuðninginn og óska bæjarstjórn, bæjarbúum og lesendum öllum gleðiríkrar jólahátíðar.

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2