Jólaskreytingar voru komnar upp í október, búið að kveikja á jólatrénu í miðbænum og enn er þó nokkuð í að aðventan hefjist.
Allt er þetta gert til að hressa upp á bæjarbúa í svartasta skammdeginu.
Reyndar er skammdegið tími möguleika. Í svarta myrkrinu dugir eitt lítið kerti til að lýsa upp tilveruna en þegar öll ljósin eru kveikt og sólin skín, sér engin litla kertaljósið. Aukið jólaskraut og fleiri ljós eru líklega í takt við velmegunina. Nú eru ljós jafnvel sett á hverja grein á trjánum sem minnir óneitanlega á þegar Mr. Bean málaði íbúðina sína með því að sprengja flugeld ofan í málningardósinni. Hafði hann pakkað öllu inn í dagblöð áður áður og jafnvel vínberin voru pökkuð inn, eitt og eitt.
En það er fleira sem kemur fyrr en ætlað en alþingiskosningar verða 30. nóvember, hálfu ári fyrr en áætlað var. Nú keppast flokkarnir tíu við að kynna sína frambjóðendur og sína stefnuskrá. Reyndar eru aðeins efstu frambjóðendurnir kynntir og kjósendur þurfa sjálfir að finna framboðslista á Island.is. Er þetta breyting frá fyrri kosningum þar sem kjörstjórnir auglýstu í prentmiðlum alla framboðslistanna. Yfirkjörstjórn hefur tekið ákvörðun um að hætta því og birt eingöngu á netinu. Eflaust er gáfulegra að kaupa minna auglýsingapláss á prentmiðlum og styrkja þá frekar með fjölmiðlastyrkjum.
Helstu ágreiningsmálefnin í alþingiskosningunum 2024 eru fjölbreytt og snerta marga þætti samfélagsins. Hér eru nokkur af þeim mikilvægustu:
Efnahagsmál: Verðbólga, atvinnuleysi og skattamál eru stór ágreiningsmál. Flokkar hafa mismunandi sýn á hvernig best sé að stýra efnahagsmálum landsins.
Heilbrigðismál: Fjármögnun og skipulag heilbrigðiskerfisins er mikið rætt, sérstaklega í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir heilbrigðisþjónustu.
Umhverfismál: Loftslagsbreytingar og orkumál eru í brennidepli. Flokkar deila um hvernig best sé að draga úr kolefnislosun og nýta endurnýjanlega orku.
Menntamál: Fjármögnun menntakerfisins og aðgengi að menntun eru mikilvæg mál, með áherslu á að bæta gæði menntunar og aðlaga hana að breyttum þörfum samfélagsins.
Félagsmál: Jafnrétti, húsnæðismál og velferðarkerfið eru einnig ágreiningsmál, þar sem flokkar hafa mismunandi hugmyndir um hvernig best sé að tryggja félagslegt öryggi og stuðning við þá sem þurfa á því að halda.
Þetta er samantekt sem Copilot hefur tekið saman við spurningunni um helstu ágreiningsefnin en gervigreind er á hraðri leið að verða stórt hjálpartæki fyrir svo marga og í raun skortir fólk helst hugmyndaflug um það hvað nýta megi það í.
En það eru fleiri málefni sem fólk telur mikilvæg, nýting náttúruauðlinda á landi og í sjó er fólki hugleikið, náttúruauðlinda sem fólk telur þjóðareign.
Hverja teljum við besta fallna til að marka stefnu með lagasetningum, lagasetningu sem á að vera grunnur fyrir framkvæmdavaldið. Þetta virðist oft vera flókið að átta sig á, ekki síst fyrir sveitarstjórnarfólk sem hefur verið með puttana í hinum minnstu málum. Það er að sögn ekkert líkt með því að vera í sveitarstjórn og að vera á þingi ef karpið er frá talið.
Guðni Gíslason ritstjóri.