Viltu fylgjast með fuglum í þínum garði í klukkutíma?

Garðfuglahelgi Fuglaverndar er 24. - 27. janúar

Fuglar fagna góðri fóðurgjöf.

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 24. – 27. janúar nk. en í tilkynningu frá Fuglavernd segir að helgi sé rangnefni, þetta sé bara einn klukkutími.

Framkvæmd athugunarinnar er einföld, þú velur stund og stað og það þarf bara að fylgjast með garði í einn klukkutíma einhvern þessara daga. Athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglunum eftir veðri og aðstæðum. Oft er gott að velja klukkutíma í ljósaskiptunum á morgnana, eða fyrir rökkur þegar fuglarnir eru að ná sér í forða fyrir kalda vetrarnóttina.

Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og skrá mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir, þú telur þá sem koma í fuglafóðrið, setjast á grein og hvíla sig. Ekki má leggja saman. Þetta er til að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður rafrænt á vef Fuglaverndar www.fuglavernd.is.

Hægt er að hlaða niður hjálparblaði talningarinnar, sem er með myndum af algengum fuglategundum og er það tilvalið fyrir börn og þá sem eru að stíga fyrstu skrefin í fuglaskoðun. Skjalið má finna hér.

Merki Fuglaverndar

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here