„Norrænt samstarf – Hafsjór tækifæra“ er yfirskrift fundar Norræna félagsins sem haldinn verður í Bookless Bungalow, Vesturgötu 32, miðvikudaginn 6. nóvember nk.
Þar verður fjallað um norrænt samstarf á breiðum grundvelli og sjónunum beint að þeim miklu samskiptum sem við eigum á norrænum vettvangi.
Hafnfirðingurinn Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, formaður höfuðborgardeildar Norræna félagsins, fjallar um mikilvægi norræns samstarfs, Oddný G. Harðardóttir alþingismaður segir frá því hvað helst er í fréttum af Norðurlandaráðsþiniginu sem haldið var hér á landi fyrir skömmu og Sunna Magnúsdóttir og Björn Pétursson frá Hafnarfjarðarbæ segja frá samstarfi og samvinnu í æskulýðs- og menningarmálum. Þá segir Svava Þóra Árnadóttir, starfsmaður Norræna félagsins frá tækifærum í norrænu samstarfi fyrir unga fólkið.
Að lokum er boðið upp á almennar umræður en fundarstjóri er Hafnfirðingurinn Hildur Helga Gísladóttir, stjórnarmaður í höfuðborgardeild Norræna félagsins.
Upplýsingar um Norræna félagið má finna á norden.is