Hamingjudagar á haustmánuðum verða haldnir í Hafnarfirði meðal annars í tilefni af Íþróttaviku Evrópu 2023 sem haldin er dagana 23. – 30. september. Hamingjudagar eru haldnir í fyrsta skipti í Hafnarfirði í ár en hugmyndin kviknaði m.a. út frá ákveðnum vísbendingum Lýðheilsuvísa Embættis Landlæknis, sem kynntir voru núverið, um að hamingjustuðull landsmanna fari dvínandi. Hamingja er ákvörðun hvers og eins og hamingjan kemur að innan. Hamingja er lífsstíll sem fólk velur sér með því að horfa öðruvísi á hið daglega líf. Hamingjudagar í Hafnarfirði verða framlag Hafnarfjarðarbæjar og heilsubæjarins Hafnarfjarðar í ár til Íþróttaviku Evrópu 2023.
Hamingjuviðburðir á Hamingjudögum í Hafnarfirði
- Hamingjustund í Hafnarborg þriðjudag 26. sept. kl. 17:00-18:30
- Hamingjusjóbað við Herjólfsgötu miðvikudag 27. sept. kl. 17:30-18:30
- Hamingju-Gong í Hellisgerði fimmtudag 28. sept. kl. 17:30-18:30
Um íþróttaviku Evrópu
Íþróttavika Evrópu er haldin dagana 25. september – 1. október 2023 í yfir 30 Evrópulöndum. Markmið vikunnar er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Heilsubærinn Hafnarfjörður hvetur öll íþróttafélög í Hafnarfirði, samtök og einstaklinga til að taka virkan þátt í íþróttavikunni með því að skipuleggja opnar æfingar og opin hús, viðburði eða aðrar uppákomur sem tengja má með beinum og óbeinum hætti við líkamlega og andlega hreyfingu og heilsu. Hafnarfjörður er búinn að vera heilsueflandi samfélag frá árinu 2015 og hóf þá vegferð að gerast heilsueflandi vinnustaður síðastliðið haust.