Miðvikudagur, nóvember 26, 2025
HeimFréttirUnglingadeildin Björgúlfur meðal þeirra sem hlaut samfélagsstyrk Krónunnar

Unglingadeildin Björgúlfur meðal þeirra sem hlaut samfélagsstyrk Krónunnar

Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni í ár.

Eitt þessara verkefna er unnið af Unglingadeildinni Björgólfi innan Björgunvarsveitar Hafnarfjarðar sem hlýtur samfélagsstyrk að upphæð 500 þúsund krónur við kaup á klifurbúnaði fyrir unglingahóp sveitarinnar.

Nýr búnaður býður upp á öruggt og heilsusamlegt tómstundastarf

Unglingadeildin Björgúlfur er opin ungmennum á aldrinum 15 til 18 ára og miðar vikuleg dagskrá deildarinnar að því að búa ungt fólk undir nýliðaþjálfun hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Hópurinn fær kynningu á starfinu sem þar fer fram, ásamt kennslu á ýmsum þáttum starfsins, svo sem ferðamennsku, rötun, fyrstu hjálp, leitartækni, fjallamennsku og fleira.

„Markmið Björgúlfs er að bjóða ungmennum upp á metnaðarfullt tómstundarstarf þar sem áhersla er lögð á útivist og hreyfingu í öruggu umhverfi. Við sóttum um samfélagsstyrk Krónunnar í þeirri von um að geta fjárfest í klifurbeltum, hjálmum og öðrum klifurbúnaði til að nýta í kennslu og æfingar. Búnaðurinn mun gera okkur kleift að bjóða ungu fólki upp á öruggt og heilsusamlegt tómstundastarf og þjálfun í útivist og björgunarstarfi. Við þökkum Krónunni kærlega fyrir styrkinn,“ segir Óskar Steinn Ómarsson, starfsmaður Björgunarsveitar Hafnafjarðar.

Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu

Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Fjórar stofnanir hlutu svokölluð Bambahús í ár og hefur Krónan lagt ríkari áherslu á að veita styrki til kaupa á slíkum gróðurhúsum sem nýtist einna helst til að fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og hringrásarhagkerfinu.

Styrkhafar í ár eru:

  • Foreldrafélag leikskólans Akrasels á Akranesi fyrir sparkvöll á lóð leikskólans
  • Blakdeild Dímons/Heklu á Hvolsvelli fyrir byrjendanámskeið í blaki fyrir konur 18 ára og eldri
  • Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum fyrir eflingu og stuðning við iðkun ungmenna á aldrinum 10 til18 ára
  • Danssetrið á Akureyri fyrir kaupum á búnaði fyrir barnajóga og danskennslu.
  • Hjólafélagið Fönn á Reyðarfirði fyrir uppsetningu á pumptrack hjólabraut í Neskaupsstað
  • Gigtarfélag Íslands fyrir hreyfihóptíma ætluðum unglingum og ungmennum með gigt
  • Unglingadeildin Björgúlfur innan Björgunarsveitar Hafnarfjarðar fyrir kaupum á klifurbúnaði fyrir kennslu og æfingar unglingahóps
  • Reiðskólinn Hestasnilld fyrir tengslanámskeið fyrir börn á aldrinum 2 til 5 ára
  • Reiðhjólabændur sem gera upp gömul hjól sem er svo dreift til efnaminni fjölskyldna
  • Rafíþróttasamband Íslands fyrir verkefnið Hreyfing í leik sem stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu barna og unglinga sem stunda tölvuleiki og rafíþróttir
  • Kerhólsskóli á Borg í Grímsnesi fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
  • Leikskólinn Mánaland í Vík í Mýrdal fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
  • Leikskólinn Holt í Njarðvík fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
  • Hlíðabær, dagþjálfun fyrir þá sem greinst hafa með heilabilunarsjúkdóm fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2