Slökkvistöð á Völlunum í Hafnarfirði er á nýbrunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, SHS, sem undirrituð var í Skógarhlíð í Reykjavík sl. föstudag.
Stefnt er að því að hún rísi á næstu tíu árum.
Áætlunin tekur við af eldri áætlun en sú nýja gildir í fimm ár. Hún er samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS og sveitarfélögum á starfssvæði slökkviliðsins.
Markmið brunavarnaáætlunar er samkvæmt lögum um brunavarnir að tryggja að slökkvilið sé mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað til að ráða við þau verkefni sem því er falið. Áætlunin byggir á áhættumati starfssvæðisins, sem ræður stærð og skipulagi slökkviliðsins og er grundvöllur að forgangsröðun aðgerða og fjármagns og eykur öryggi íbúa svæðisins.
Einn liður í því að bæta viðbragð slökkviliðs er bygging nýrrar slökkvistöðvar í Tónahvarfi í Kópavogi sem er áætlað að komist í gagnið innan fimm ára. Einnig eru áform um byggingu á stöð á Völlunum í Hafnarfirði á næstu 10 árum.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS kveðst fagna útkomu nýju brunavarnaáætlunarinnar og segir spennandi tíma framundan hjá SHS í uppbyggingu slökkviliðsins. „Ný áætlun gerir okkur enn betur kleift að sinna okkar lögbundnu verkefnum áfram vel, ásamt öðrum sem okkur er falið að leysa,“ segir Jón Viðar.
Skoða má áætlunina hér.




