Núna um helgina fór fram í Varsjá, Polish Open G-1, eitt af sterkustu G-1 mótunum í Olympísku Taekwondo sem gildir til stiga á heimslistanum.
Rúmlega 1.000 keppendur voru á mótinu, á háu getustigi allt frá Olympíu-, heims- og Evrópumeistara til þeirra sem eru að byrja að færa sig inn á hæðsta stig í bardaga.
Íslensku landsliðsmennirnir Leo Anthony Speight úr Björk og Guðmundur Flóki Sigurjónsson kepptu á vegum Íslands á mótinu undir leiðsögn Richard Fairhurst landsliðsþjálfara.
Guðmundur Flóki vann Gull í Senior -80 kg (18 manna flokki) og vann meðal annars þá sem sitja í 5. og 9. sæti heimslistans og Leo náði glæstum árangri og náði silfri í stærsta flokki mótsins.
Leo byrjaði daginn á að fara á móti Pólverja sem hann hafði tapað fyrir á Presidents Cup á seinasta ári. Í þetta skiptið var það hins vegar Leo sem stóð uppi sem sigurvegari þar sem hann sigraði hann 2-1.
Næst fór hann á móti keppanda frá Saudi Arabíu sem hafði unnið tvo sterka keppendur fyrr um daginn. Eftir æsispennandi bardaga stóð Leo upp sem sigurvegari 2-1.
Í undanúrslitum mætti hann svo Dana sem hafði þegar unnið silfurverðlaunahafa frá seinasta US open. Leo gerði sér lítið fyrir og vann hann einnig 2-1 og því kominn í úrslit.
Í úrslitum mætti hann svo sterkum Spánverja en varð að játa sig sigraðan 2-0 en endaði daginn með silfur sem er glæsilegur árangur á svona sterku móti. Þetta er fjórða G medalía Leo á árinu og sú tíunda í heildina sem er það langmesta af öllum Íslendingum.