Samsýning Barböru Glod og Kristbergs Ó. Péturssonar í Litla Gallerí verður í Litla Gallerýi 21. – 24. ágúst en sérstök sýningaropnun verður fimmtudaginn 21. ágúst frá 18 til 21 og eru allir hjartanlega velkomnir!
Barbara er fædd í Kalisz Pomorski í Póllandi, 17 desember 1962. Hún lærði hjúkrunarfræði í Koszalin og í Poznan og er með master í hjúkrun. Starfaði sem hjúkrunarfræðingur í Póllandi í nokkur ár en flutti svo til Íslands árið 1992 og hefur starfað frá árinu 1994 á LSH bæði í Fossvogi og á Hringbraut.
Barbara hefur mikinn áhuga á myndlist og málar olíumyndir, akrýl- og vatnslitamyndir. Hún hefur gegnum árin verið dugleg að sækja námskeið í myndlist, meðal annars í Myndlistarskóla Kópavogs hjá Margréti Jónsdóttur, Mími tómstundaskóla hjá Hörpu Björnsdóttur og í Tómstundaskólanum hjá Guðbjörgu Lind Jónsdóttur. Barbara hefur að auki fengið tilsögn í einkatímum hjá Kristbergi Ó. Péturssyni.
Kristbergur er fæddur í Hafnarfirði 6 janúar 1962. Hann stundaði nám við Myndlista og Handíðaskóla Íslands 1979 – ´85 og við Ríkisakademíuna í Amsterdam 1985 – ´88. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum heima og erlendis. Verk eftir hann eru í nokkrum helstu listasöfnum landsins og hann hefur nokkrum sinnum hlotið listamannalaun.
Allt frá fyrstu kynnum þeirra Barböru og Kristbergs fyrir þrettán árum, hafa þau fyglst með framvindu hvors annars í myndlistinni og skipst á hugmyndum, ábendingum og hvatningu. Það var einhverntíma í janúar s.l. sem Kristbergur kíkti til Barböru í kaffi og spjall. Eins og ævinlega snerist spjall þeirra um myndlist. Barbara stillti upp nýjustu myndum sínum til að sýna Kristbergi „Eigum við ekki bara að halda sýningu saman?” spurði hann. Barböru fannst það góð hugmynd og hér eru þau komin með verkin sín.
Sýningin verður opin:
Fös. 22. ágúst 13:00 – 18:00
Lau. 23. ágúst 12:00 – 17:00
Sun. 24. ágúst 13:00 – 17:00
LG // Litla Gallerý er styrkt af menningar og ferðamálanefnd
Hafnarfjarðarbæjar vegna viðburðarins