Haustið 2021 var ráðist í að kortleggja stöðuna og liggja nú fyrir ítarlegar upplýsingar um raunverulega búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, ásamt mati á ástandi brunavarna og félagslegum aðstæðum íbúa.
Eftir kortlagninguna er áætlað að fjöldi einstaklinga sem búa í atvinnuhúsnæði séu alls 1.868 og búa þeir í 204 heimilisföngum þar sem staðfest er búseta víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Þá byggir framangreindur íbúafjöldi á talningu eftirlitsfulltrúa slökkviliðsins sem metinn er eftir samtal við 933 íbúa sem gerir um helming þeirra sem áætlað er að búi í atvinnuhúsnæði og má því ætla að kortlagningin endurspegli ágætlega búsetu í atvinnuhúsnæði og aðstæður þeirra sem þar búa.

Félagslegar aðstæður íbúa eru einnig mismunandi en athygli vakti að 23,6% íbúa eru Íslendingar og er ætlað að meirihluti þeirra búi í eigin atvinnuhúsnæði. Þá eru 76,4% íbúa af erlendum uppruna og er talið að viðkomandi aðilar velji að búa í atvinnuhúsnæði vegna lágrar leigu og er oftast um tímabundið húsnæði að ræða. Þá fundu flestir húsnæðið sjálfir eða var bent á það en í einhverjum tilvikum fylgdi húsnæðið starfinu. Einnig vakti sérstaka athygli að meirihluti íbúa er á vinnumarkaði eða 85% íbúa sem rætt var við.
- 860 íbúar Reykjavíkur búa í atvinnuhúsnæði
- 472 íbúar Hafnarfjarðar búa í atvinnuhúsnæði
- 353 íbúar Kópavogs búa í atvinnuhúsnæði
- 96 íbúar búsettur Garðabæjar búar í atvinnuhúsnæði
- 71 íbúi Mosfellsbæjar býr í atvinnuhúsnæði
- 14 íbúar Seltjarnarness búa í atvinnuhúsnæði
Hæst hlutfall íbúa í atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði
Langflestir búa í atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði sem hlutfall af íbúafjölda eða um 1,6% íbúa Hafnarfjarðar.
Í Kópavogi sem kemur þar á eftir er hlutfallið 1,2% og í Reykjavík aðeins 0,7%.
Ásættanlegar brunavarnir í 55% tilfella
Miðað við heildarsamantekt á ástandi brunavarna í því atvinnuhúsnæði er fólk hefur búsetu í var það mat eftirlitsfulltrúanna að brunavarnir væru í 55,1% tilfella ásættanlegar og ættu bruna varnir þar með að vera viðunandi svo unnt sé að tryggja öryggi íbúa ef upp kemur eldsvoði. Í 23,7% tilfella voru brunavarnir ekki í lagi.
Aðbúnaður mjög mismunandi
Ekki var ekki alltaf samræmi á milli ástands brunavarna annars vegar og annars aðbúnaðar hins vegar að mati eftirlitsfulltrúa. Stundum voru brunavarnir í toppstandi en annar aðbúnaður mjög slæmur, viðhaldi ekki sinnt og húsnæðið óþrifalegt.
Aðspurð um versta aðbúnað inn sem eftirlitsfulltrúarnir sáu í kortlagningunni nefndu þau oftast húsnæði þar sem erlent verkafólk býr í. Þar sé oft mikil hreyfing á fólki, starfsfólk stoppi gjarnan aðeins í nokkra mánuði í senn á landinu og svo taki nýtt fólk við.
Eftirlitsfulltrúar gátu nafngreint til teknar starfsmannaleigur í þessu samhengi. Starfsmannaleigur virðist í sumum tilvikum hafa milligöngu um húsnæði fyrir starfsfólkið sem hingað kemur til að vinna og safna pening. Aðbúnaður í slíku húsnæði sé með ýmsum hætti en í sumum tilvikum sé hann skelfilegur. Í einu tilviki voru þrjú klósett fyrir 30 manns, þar af eitt klósett sem lak og ekki fékkst gert við. Þessir starfsmenn greiddu 60.000 kr. fyrir lítið herbergi sem þeir deildu gjarnan með einum öðrum.
Nokkuð virðist vera um gámabyggðir. Gámurinn er þá að jafnaði með baðherbergi, eldhúskróki og svefnfletum. Menn bjuggu ýmist einir eða tveir saman í gámi. Fram kom að fólk sem býr í húsnæði á vegum atvinnurekanda greiðir allt að 90.000 kr. fyrir herbergi og í sumum tilvikum óttast fólk um húsnæðisöryggi sitt.
Þá segir einn eftirlitsfulltrúinn:
„Það er ekki hægt að bera saman annars vegar atvinnuhúsnæði sem Íslendingar búa í, sem oft eru eigendur húsnæðisins, og hins vegar erlent launafólk.“
Ýmsar ástæður fyrir búsetu
Í samantekt kemur fram ýmsar ástæður eru fyrir því að fólk býr í atvinnuhúsnæði hér á landi. Skortur á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er til eignar eða leigu, kunni að valda því að óhefðbundin búsetuform séu valin, auk þess sem búseta í atvinnuhúsnæði kunni að vera eðlileg þróun og í raun val þar sem ákveðin hverfi eru í umbreytingarferli.
Þá séu félagslegar og fjárhagslegar aðstæður fólks mismunandi og því nauðsynlegt að mæta ólíkum þörfum fólks með aðgengi að hentugu og öruggu húsnæði svo hægt sé að tryggja húsnæðisöryggi í landinu.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér.



