fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFréttirGönguskíðaparadís á Hvaleyrarvatni

Gönguskíðaparadís á Hvaleyrarvatni

Á undanförnum árum hefur ekki sést mikið til gönguskíðafólks á frosnu Hvaleyrarvatni. Eitthvað hefur þó verið um það en oftast vegna þess að vatnið hefur einfaldlega ekki frosið eða að snjór hefur ekki verið nægur.

Góð stemming var þegar 18 tíma gangan stóð yfir.

Skömmu fyrir jól stóðu þeir Ein­ar Ólafs­son og Óskar Páll Sveins­son fyrir 18 klukkutíma skíðagöngu til styrkt­ar Ljós­inu. Höfðu þeir ætlað að ganga í Bláfjöllum eins og ári áður en þar var ekki hægt að skíða svo upp kom sú hugmynd að skíða á Hvaleyrarvatni en þar hafði áhugasamur skíðamaður útbúið einfalt spor á vatninu og nokkuð hafði verið gengið á því.

Eftir að hafa fengið aðstöðu í skátaskálanum Skátalundi á meðan á átakinu stóð ákváðu þeir félagar að boða fólk til göngu frá kl. 16 og ganga til kl. 10 daginn eftir en 21. desember er stysti dagur ársins. Þeir ásamt einum til gengu á skíðum á Hvaleyrarvatni í 18 klukkutíma frá sólsetri til sólarupprásar en mjög margir komu og skíðuðu einn til fleiri hringi. Höfðu þeir mætt með tæki til að marka tvöfalda braut á vatninu og náðu að útbúa um 3 km langa braut.

Á Hvaleyrarvatnsvegi þar sem lagt var alls staðar sem hægt var.

Eftir þetta þyrptist fólk að Hvaleyrarvatni, þannig að oft var umferðaröngþveiti og öll bílastæði full. Var þetta um tíma eina gönguskíðasporið á Höfuðborgarsvæðinu en nú má einnig finna spor í Heiðmörk, á Hólmsheiði, við Hafravatn og víðar.

Brautin undirbúin fyrir sporann í morgun.

Það hafa verið m.a. félagar í Gönguskíðafélagi Hafnarfjarðar sem hafa lagt spor á vatninu og hafa m.a. keypt snjósleða til að draga sporann til mikillar ánægju fyrir svo marga.

Salernin lokuð vegna vatnsleysis

Því miður hafa salernin verið lokuð að mestu en frosið er í heimæð að salernunum og Skátalundi og hefur ekki tekist að koma vatni á þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Framtíðarsvæði í Kjóadal?

Hvaleyrarvatn er ekki tryggur staður fyrir skíðagöngu enda ekki oft sem vatnið frýs lengi yfir vetrartímann. Einn ákjósanlegasti staður fyrir skíðagöngubraut gæti verið í Kjóadal, sem skv. skipulagi er útivistarsvæði. Þar hafa skátar viðrað hugmyndir um athafanasvæði undir almenningstjaldstæði og stað undir skátamót. Dalurinn gefur mikla möguleika fyrir fjölbreytta notkun en nú er dalurinn nýttur undir hrossabeit og sem ruslasvæði fyrir hrossaskít en þangað hefur gífurlegu magni af hrossaskít verið ekið á undanförnum árum án viðbragða hjá Heilbrigðiseftirlitinu eða Hafnarfjarðarbæ.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2