fbpx
Þriðjudagur, desember 3, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanVerkefnin framundan

Verkefnin framundan

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir oddviti Viðreisnar í SV-kjördæmi skrifar:

Verkefnin framundan fyrir íslenskt samfélag eru mörg. Þau krefjast stöðugleika í atvinnulífi, lang­tíma­hugs­unar og fjárfestinga, en fyrst og síðast þor til breytinga sem stuðla að um­bótum fyrir samfélagið allt.

Heilbrigðismálin hafa loks­ins fengið verðugan sess í að­draganda kosninga og er fagnaðarefni að allir flokkar hafa talað fyrir því að setja þau í forgang. Þá er bara að tryggja að svo verði.

Viðreisn hefur sett fram skýra stefnu um aðgerðir í heil­brigðismálum sem byggir á því að efla heilsugæsluna, styrkja sjúkrahúsin og hraða upp­byggingu í öldrunarmálum. Jafn­hliða því skal dregið úr greiðsluþátttöku almennings.

Greiðsluskerðingar og tekjutengingar til aldraðra og öryrkja verða endur­skoðaðar og lágmarkslífeyrir þessa hópa verði 300 þúsund krónur.

Menntakerfið er grunnur að frekari nýsköpun og fjölgun sprotafyrirtækja í landinu. Markmið Viðreisnar er að háskólar nái meðaltali framlaga OECD ríkjanna árið 2020. Með háskólum og samkeppnissjóðum á sviði rannsókna næst fram eftirsótt verðmætasköpun í stað þess að einblínt verði á virkjun náttúruauðlinda sem eina úrræði þjóðarinnar til aukins hagvaxtar.

Mörg önnur mikilvæg verkefni bíða. Eitt er lækkun tryggingargjalds sem vanrækt hefur verið að lækka en gjaldið kemur lang verst niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Langtíma­lausn í peningamálum er líklega sú mikilvægasta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki en lækkun vaxta er mesta kjarabót íslenskra heimila til skemmri og lengri tíma. Þar liggja fyrir tillögur Viðreisnar um fast­gengisstefnu og myntráð. Er fagnaðar­efni að aðrir flokkar eru byrjaðir að tala fyrir því að peningamálastefna okkar verði endurskoðuð. Þetta er brýnt samstarfsverkefni opin­berra aðila og aðila vinnu­markaðarins.

Löggæslumál hafa ekki verið sér­staklega í brennidepli fyrir þessar kosn­ingar þótt vonandi viðurkenni flestir mikilvægi þess að hafa lög­reglu vel mannaða og út­­búna. Og líka glaða. Snúa verður niðurskurði síðustu ára við og taka málefni lögreglunnar til gagn­gerrar endur­skoð­unar en skýrslur liggja fyrir um for­gangsröðun svo hægt er að ganga í verkið. Fyrr en síðar.

Viðreisn vill að kjósendur eigi kost á frjálslyndri stjórn sem getur dregið fram það besta á andstæðum vængjum stjórnmálanna.

Við teljum að íslenskt samfélag þarfn­­­ist stöðugleika á sviði stjórn­mál­anna, á vinnumarkaði og í efna­hags­málum. Það tryggir þjóðin best með því að skipta ekki um póla á fjögra ára fresti og kjósa öfganna á milli heldur að kjósa það afl sem stendur fyrir raunhæfar lang­tímalausnir en ekki kollsteypu­stjórnmál. Við viljum byggja á því sem vel hefur verið gert en þorum að horfast í augu við áskoranir nýrra tíma og viljum leiða mikilvægar breytingar á íslensku samfélagi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
oddviti Viðreisnar í SV-kjördæmi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2