Það er hins vegar aldrei of seint að iðrast eftir á

Ómar Smári Ármannsson - Af hæstu hæðum III

Ómar Smári Ármannsson

Galdraöldin (brennuöldin) á Íslandi var aðallega 17. öldin. Á þeim tíma var 152 galdramálum stefnt fyrir Alþingi. Alþingi var dómstóll landsins á þeim tíma. Skráð mál vörðuðu 170 sakborninga. Af þessum 170 einstaklingum voru 25 brenndir á báli. Í landinu voru þá 40-50 þúsund manns.

Brennuöldin kallast tímabilið 1625-1690, frá því fyrsti staðfesti brennudómurinn var kveðinn upp yfir Jóni Rögnvaldssyni á Meleyrum í Svarfaðardal og þar til síðasti brennudómurinn féll yfir Klemusi Bjarnasyni á alþingi árið 1690.

Fyrsta galdramálið kom þó upp á Íslandi 1554 en það síðasta kom fyrir dómstól árið 1720. Áður en brennuöldin gekk formlega í garð höfðu þó þrjár konur verið brenndar á báli á Íslandi. Fyrsta brennan átti sér stað á Kirkjubæ á Síðu árið 1343 þegar nunna ýmist nefnd Katrín eða Kristín var brennd á báli því að hún „gefist hafði púkanum með bréfi“ og einnig hafði hún „misfarið með guðs líkama og … lagst með mörgum leikmönnum“. Heimildir eru um að „tilberamóðir“ hafi verið brennd á báli árið 1580 eins og fram kemur í Íslandslýsingu Resens. Árið 1608 herma dómabækur að Guðrún Þorsteinsdóttir í Þingeyjarþingi hafi verið brennd á báli en hún hafði „brennt til dauðs barn Ólafs Jónssonar, var hún dæmd dræp og síðan brennd eptir dómi 1608“.

Ástæðurnar fyrir ásökunum fyrir fjölkyngi hér á landi voru byggðar á djöflakenningum kirkjunnar um samning mannsins við djöfulinn vegna þess að nornin hefði náð valdi á honum gegn Guði, en staðreyndin var einfaldlega sú að alþýðan var að reyna hvað hún mátti til að reyna, miðað við vanmáttugar erfiðar aðstæður, hungur og óeiran, að lækna hvern annan af meinkvillum er hrjáði þjóðina á þeim tíma. Þessi heillaráð voru af kirkjunnar ráðamönnum túlkuð sem galdratrú. Hafa ber í huga að ráðamennirnir bjuggu þá, líkt og nú, við mun betri aðstæður en alþýðan.

Alþýðufólk varð fórnarlömb ofsóknanna. Einstök landssvæði voru viðkvæmari fyrir galdravillunum en þar sem upplýsingin var minni. Til þess að galdrafár gæti breiðst út þurfti þrjár meginástæður; sameiningu kirkjulegra yfirvalda og veraldlegra, auk áhrifalítillar alþýðu.

Aftökuaðferðin var sérstaklega ógeðfell. Fyrir henni var reyndar engin lagastoð. Það var ekkert í íslenskum lögum sem heimilaði að fólk væri brennt lifandi á báli, eins og tilfellið var. Það var einungis verið að dæma eftir guðsorði þess tíma, erlendum „lögum annarra þjóða og herra“, sem ekkert lagagildi höfðu hér á landi. Alþýðufólk var látið sverja eiða til stuðnings sínu fólki, sem fátt gat staðið með sökuðum gegn harðvítugu yfirvaldinu.

Síðasta aftakan fór fram þann 4. júlí 1685. Í dag er mikilvægt að hreinsa minningu fórnarlamba framangreindra ofsókna, gera yfirbót og biðjast fyrirgefningar. Kirkja og dómstólar á Íslandi þurfa að gera yfirbót gagnvart þessu fólki. Dómstólar eiga að taka málin upp á ný og veita þessu fólki sakaruppgjöf. Engin lagastoð var til grundvallar þessum dómum á sínum tíma. Ákjósanlegast hefði verið að höfða mál á hendur þeim er harðast gengu fram í hinum tilgangslausu trúarofsóknunum fyrri tíma, en það virðist því miður of seint.

Það er hins vegar aldrei of seint að iðrast eftir á.

Með kveðju,
Ómar Smári Ármansson

Ummæli

Ummæli