fbpx
Fimmtudagur, janúar 27, 2022

Opið bréf frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar

Undirrituð vilja koma eftirfarandi á framfæri vegna mála tengdum upp­byggingu knatthúss í Kaplakrika.

Ráðuneyti Samgöngu- og sveitar­stjórnarmála tekur undir athugasemdir varðandi það að stjórnsýslu hafi verið ábótavant við meðferð og afgreiðslu málsins og telur það ámælisvert.
Þann 8. ágúst 2018 var boðað til fund­ar í bæjarráði þar sem til afgreiðslu var rammasamkomulag við FH vegna bygg­ingar knatthúss í Kaplakrika. Með sam­komulaginu var verið að hverfa frá þverpólitískri samþykkt í bæjarstjórn frá 10. maí 2017 um það að bæjarfélagið myndi sjálft sjá um að byggja og reka íþróttamannvirki sem það hefði aðkomu að. Við þetta gerðum við athugasemd.

Afgreiðsla bæjarráðs

Við gerðum einnig athugasemd við það að bæjarráð tæki málið til afgreiðslu en ekki bæjarstjórn. Lögum samkvæmt er bæjarráði heimilt að taka mál til fulln­aðarafgreiðslu ef bæjarstjórn er í sumar­leyfi. Alla jafna er það þó ekki gert í málum sem varða verulega hagsmuni sveitar­félagsins. Ekki hafa allir flokkar í bæjarstjórn atkvæði í ráðinu og því einungis lítill hluti bæjarfulltrúa sem kemur að ákvarðanatöku þar.

Ráðuneytið tekur undir gagnrýni

Undir þessa gagnrýni er tekið í áliti sem samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneytið hefur nú skilað vegna þessara mála. Þar kemur fram að markmið ákvæðisins um heimild bæjarráðs til ákvarðanatöku sé fyrst og fremst ætlað til að tryggja sveitarfélögum nauðsynlegt svigrúm til að bregðast hratt við aðs­tæðum ef nauðsyn ber til. Ráðuneytið sér enn fremur ástæðu til að árétta að heim­ildir bæjarráðs til fullnaðarafgreiðslu mála séu „ekki ætlaðar til að taka ákvarð­anir um ráðstöfun verulegra hagsmuna sveitarfélagsins með skömmum fyrirvara og án tilhlýðilegs undirbúnings.“ Bent er á að það teljist ganga gegn þeim lýð­ræðisgrundvelli sem sveitarfélög eiga að starfa eftir sem og sjónarmiðum um vand­aðan undirbúning ákvarðana er varða almannahag.

Meðferð fjármuna

Fulltrúar Samfylkingarinnar ásamt fleiri flokkum í minnihluta bæjarstjórnar gagnrýndu einnig ákvarðanatöku varð­andi meðferð fjármuna. Ekki var gerður viðauki við fjárhagsáætlun sem gerði grein fyrir þeirri breytingu að kaupa íþróttamannvirki í stað þess að byggja knatthús. Þá var fjárhæðin einnig hærri en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir við bygginguna. Einnig gerðum við athuga­semdir við greiðslu 100 milljóna króna til íþróttafélagsins án þess að viðauki hefði verið gerður fyrir því. Sveitar­stjórn­arlögin eru afar skýr þegar kemur að meðferð fjármuna og alveg ljóst að viðauka átti að gera áður en kom til þessara ráðstafana.

Ámælisverð stjórnsýsla

Tekið er undir þetta í áliti ráðuneytisins sem áréttar að með öllu sé óheimilt að víkja frá gildandi fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka. Í álitinu kemur fram sú sama skoðun að um umtalsverða eðlisbreytingu hafi verið að ræða varðandi ráðstöfun fjár­muna þegar ákveðið var að hætta við byggingu knatthússins og kaupa þess í stað önnur íþróttamannvirki. Því hafi verið um verulegar breytingar á fjárhags­legum skuldbindingum að ræða. Um þetta segir í álitinu að greiðslan „hafi ekki verið tímabær“ þar sem ekki hafi verið búið að staðfesta viðauka við fjárhagsáætlun. Hafi stjórnsýsla Hafnar­fjarðarbæjar að þessu leyti verið „ámælis­verð.“

Niðurstaða málsins

Niðurstaða ráðuneytisins er að stjórnsýslu hafi verið að nokkru leyti ábótavant við meðferð og afgreiðslu málsins og telur það ámælisvert. Þeim tilmælum er beint til Hafnarfjarðarbæjar að hafa þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu til hliðsjónar í framtíðinni.
Hins vegar teljast ágallar á máls­með­ferðinni ekki varða ólögmæti ákvarð­an­anna. Fyrir tilstilli fulltrúa í minni­hluta bæjarstjórnar var viðauki gerður eftir á og á því byggir einna helst niðurstaðan um lögmætið.

Að lokum

Það er gott að niðurstaða hafi loks feng­ist í þessu máli. Hún staðfestir að umkvartanir okkar varðandi málsmeð­ferðina voru réttmætar þrátt fyrir að ákvarðanirnar teljist lögmætar.

Við viljum benda á að gagnrýni okkar hefur allan tímann snúið að málsmeð­ferðinni og hefur ekkert með afstöðu okkar til uppbyggingar íþróttamannvirkja að gera, þrátt fyrir að fulltrúar meiri­hlutans hafi ítrekað reynt að láta það líta svo út að við værum í herferð gegn íþrótta­félaginu sem um ræðir. Við teljum mikilvægt að stunda heiðarleg og lýð­ræðisleg vinnubrögð og upp á það fannst okkur vanta í þessu máli.

Adda María Jóhannsóttir,
Friðþjófur Helgi Karlsson,
bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Greinin birtist í fréttablaðinu Fjarðarfréttum 2. október 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar fréttir

Fylgjstu með

3,320AðdáendurLíka við
53FylgjendurFylgja
0áskrifendurGerast áskrifandi
- Auglýsing -spot_img

Nýjustu greinar