fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálMiðbær númer eitt

Miðbær númer eitt

Gauti Skúlason skrifar

Skipulagsmál á sveitarstjórnarstiginu er sá málaflokkur sem snertir daglegt líf okkar hvað mest. Skipulag í sveitarfélagi er pólitísk ákvörðun sveitarstjórnar um það hvernig uppbygging nærumhverfis okkar er háttað. Sem dæmi er nærumhverfi mitt miðbærinn Í Hafnarfirði og þessu kjörtímabili hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafist handa við að gera breytingar á skipulagi miðbæjarins. Það hefur gengið brösuglega fyrir sig.

Í ársbyrjun 2019 skipaði meirihlutinn starfshóp um skipulag miðbæjarins. Um haustið sama ár skilaði starfshópurinn drögum að skýrslu sem unnin var án alls samráðs við íbúa og aðra haghafa – enda mættu tillögur meirihlutans mikilli andstöðu þeirra. Í framhaldinu lagði fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingarráði fram bókun um það að hefja ætti endurskoðun á skipulagi miðbæjarins að nýju, með virku samráði við íbúa og aðra haghafa.

Aftur að teikniborðinu

Áðurnefndur starfshópur hóf vinnu sína á ný, þá með virku samráði og skilaði svo af sér skýrslu og tillögum að skipulagi miðbæjarins í ársbyrjun 2021. Rétt áður, eða í árslok 2020, ákvað meirihlutinn að reisa ætti nýtt bókasafn á opna svæðinu fyrir aftan Fjörð. Svo loks í júní á þessu ári lagði meirihlutinn fram tillögur sem snúa einungis að litlum reit (reit 1 í deiliskipulagi miðbæjarins) sem afmarkast af Linnetsstíg, Austurgötu, Strandgötu og Reykjavíkurvegi. Hér er ef til vill hægt að taka viljann fyrir verkið en eftir tæplega þriggja ára vinnu er sorglegt að sjá hversu stutt á leið endurskoðun á skipulagi miðbæjarins er komin.

Þegar kemur að reitunum á milli Fjarðar og sjávar, alveg frá Hafnarfjarðarkirkju og út að Norðurbakka er ekkert nýtt að frétta frá meirihlutanum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja virkt samráð við íbúa og aðra haghafa um breytingar á skipulagi þessara reita en tækifærin á svæðinu eru fjölmörg. Eins og í miðbænum öllum er frábært aðgengi að almenningssamgöngum. Þarna væri hægt er að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, verslunum, veitinga- og kaffihúsum, almenningsgarði og annarri fjölbreyttri þjónustu þar sem mannlíf getur þrifist og blómstrað.

Á hverju strandar?

Metnaðar- og samráðsleysi, bútasaumur í skipulagi og engin framtíðarsýn meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kemur í veg fyrir heildræna endurskoðun á skipulagi miðbæjarins. Í miðbæ Hafnarfjarðar, sem er án efa einn fallegasti miðbær á landinu, eru fjölmörg frábær tækifæri. Við eigum að líta á miðbæ Hafnarfjarðar sem miðbæ númer eitt á Íslandi, miðbæ sem fólk heimsækir út af miðbænum sjálfum. Til þess að búa þannig um hnútana þarf að leggja fram heildræna og skýra framtíðarsýn í samráði við íbúa og aðra haghafa um hvernig við viljum hafa miðbæinn okkar.

Gauti Skúlason, íbúi í miðbæ Hafnarfjarðar.

Höfundur sækist eftir 5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar
sem haldið verður 12. febrúar. n.k.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2