Hrafna-Flóki, Jónas í hvalnum og Hvaleyrarlónsbrú

Reynir Ingibjartsson skrifar

Reynir Ingibjartsson
Reynir Ingibjartsson

Á árinu 2007 sendi ég greinarstúf á Fjarðarpóstinn sem þá var og setti fram þá hugmynd, að byggja göngubrú yfir útfallið úr Hvaleyrarlóni, svo hægt væri að ganga kringum lónið. Góður göngustígur er nú um suðurhöfnina og að fráveitustöðinni yst á brimbrjótnum og eins meðfram lóninu að vestanverðu, og með þessari brúartengingu, yrði til stígatenging sem næði um Hvaleyrarholtið og alla leið að Álverinu í Straumsvík.

Nú er fyrirhuguð íbúabyggð á hafnarsvæðinu neðan Hvaleyrarbrautar og utan Fornubúða og þá þarf að huga að útivistarmöguleikum og göngustígum. Þar gæti Hvaleyrarlónsbú orðið góður kostur.

Þá er það sagan af Hrafna-Flóka. Eftir misheppnaða búsetu í Vatnsfirði á Barðaströnd, lá leiðin aftur til Noregs og siglt yfir Faxaflóann. Þar slitnaði léttabátur aftan úr skipi Hrafna-Flóka og um borð var einn skipverja – Herjólfur. Við leit að honum fannst dauður hvalur á Hvaleyrinni, eitt fyrsta kennileiti sem til varð á landi hér. Herjólfur fannst svo á þessum stað sem nefndur var Herjólfshöfn. Líklega er þar átt við Hvaleyrarlónið.

Önnur saga rifjast líka upp – sagan af Jónasi í hvalnum sem sagt er frá í Biblíunni og var einn af spámönnunum. Hann hlýddi ekki skipun Drottins og flúði um borð í skip sem sigla átti til Spánar. Honum var varpað fyrir borð í brjáluðu veðri og þá lægði storminn. Það var af Jónasi að segja, að stórhveli gleypti hann og þar hafðist hann við í þrjá sólarhringa, þar til hvalurinn spúði Jónasi upp á land.

Þá er það þetta með brúna. Miðhluti hennar gæti verið í hvallíki og gönguleiðin gegn um hvalinn. Þá er ekki verra að Hafrannsóknarstofnun er flutt á hafnarsvæðið með sínar hvalarannsóknir. Í „hvalbrúnni” væri hægt að koma fyrir sýningu á hvölum við Íslandsstrendur. Svo gæti verið á brúnni kjörinn staður til að segja sögu Hrafna-Flóka og þeirra örnefna sem þarna urðu til.

Hvaleyrarlón – Ljósmynd: Guðni Gíslason

Sagt er að orð séu til alls fyrst. Ef af þessu yrði, gæti brú á þessum stað og í þessu formi, orðið að skemmtilegu kennileiti fyrir Hafnarfjörð og að frábærum útsýnisstað. Hvaleyrarlónið er staður sem ekki hefur fengið mikla athygli og umhverfi þess er hægt að gera margt til góða. Bátaskýlin þarna gætu fengið nýtt hlutverk s.s. vinnustaðir listamanna og ekki verra að finna þar kaffihús.

Ég beini þessari hugmynd til bæjarbúa og ráðamanna og góð byrjun gæti verið að efna til hugmyndasamkeppni um brú á þessum slóðum. Enginn lét reyndar í sér heyra árið 2007, en það hefur ýmislegt breyst síðan. Hver veit?.

Reynir Ingibjartsson,
íbúi á Hvaleyrarholti.
reyniring@internet.is

Ummæli

Ummæli