fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFréttirPólitíkAkstursþjónusta eldra fólks - löngu tímabær fjölgun ferða

Akstursþjónusta eldra fólks – löngu tímabær fjölgun ferða

Auður Brynjólfsdóttir og Árni Rúnar Þorvaldsson skrifa

Í upphafi þessa kjörtímabils lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði til að hafin yrði vinna við endurskoðun reglna um akstursþjónustu eldra fólks í Hafnarfirði og að Öldungaráði yrði falið að hefja þá vinnu. Um er að ræða mikilvæga þjónustu enda er markmiðið með henni m.a. að rjúfa félagslega einangrun og stuðla að félagslegri virkni. Tillagan var samþykkt og meginniðurstaðan í vinnu Öldungaráðs var að ferðum akstursþjónustunnar yrði fjölgað úr 8 í 16 á mánuði. Hafnarfjörður var nefnilega eftirbátur nágrannasveitarfélaganna í þessum efnum þannig að fjölgun ferða var löngu tímabær.

Samfylkingin fylgir málinu eftir

Frá því að tillaga Öldungaráðs um fjölgun ferða lá fyrir hafa fulltrúar Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði fylgt málinu fast eftir með tillögum, fyrirspurnum og bókunum allt síðasta ár. Í tvígang lögðum við til að ferðunum yrði fjölgað í samræmi við tillögur Öldungaráðs og í bæði skiptin heyktist meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á því að samþykkja tillöguna, fyrst með því að fresta afgreiðslunni og svo með því að hafna tillögunni af því að málið væri í vinnslu. En það er raunar nokkuð þekkt stef hjá meirihlutanum.

Baráttan ber loks árangur

Það var svo við afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem barátta Öldungaráðs og Samfylkingarinnar bar loks árangur en þá var samþykkt að fjölga ferðunum úr 8 í 16 á mánuði í samræmi við tillögu Öldungaráðs. Það var ánægjulegt þótt betur hefði farið á því að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefði einfaldlega samþykkt tillögu jafnaðarfólks þegar hún, í tvígang, var lögð fram á síðasta ári. Við höfum einnig gagnrýnt seinagang meirihlutans við að afgreiða reglurnar þannig að fjölgunin kæmi til framkvæmda sem fyrst. Þótt vinnulagið hafi frá áramótum verið með þeim hætti að beiðnir fólks um ferðir umfram 8 hafi verið samþykktar þá er það ekki það sama og að eiga skýlausan rétt á 16 ferðum á mánuði. Reglurnar voru í raun ekki afgreiddar í bæjarstjórn fyrr en á síðasta fundi bæjarstjórnar, þann 10. apríl sl. þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir af árinu. Hvað sem þessu líður fögnum við því að þetta mál sé nú í höfn enda um afar mikilvæga þjónustu að ræða.

Mikilvægi notendaráða

Engum blöðum er um það að fletta að frumkvæði og barátta Öldungaráðs voru drifkrafturinn á bakvið þessa ánægjulegu niðurstöðu. Það undirstrikar mikilvægi hagsmuna- og notendaráða sem starfa fyrir bæjarfélagið svo ekki verður um villst og þetta mál sýnir að bæjarstjórn ber að leita allra leiða til þess að efla hagsmuna- og notendaráðin, gera þeim hærra undir höfði innan stjórnsýslunnar og gera vinnu þeirra sýnilegri. Samfylkingin leggur mikla áherslu á gott samstarf og virkt samráð við notendaráðin og mun vinna að því að efla starfsemi þeirra til heilla fyrir bæinn.

Auður Brynjólfsdóttir,
Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúar Samfylkingarinnar í fjölskylduráði 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2