„Börn og unglingar eiga að leysa málin með okkur. Foreldrar eru öryggisnetið og þurfa að standa saman og taka þátt,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir sem vinnur að því að fá formlega viðurkenningu á því að Hafnarfjarðarbær sé barnvænt samfélag.
„Það er mikilvægt að hlusta á raddir barnanna þegar við reynum að leysa málin. Það á til að mynda við núna þegar við tökum á svo óhugnanlegu máli eins og vopnaburði í skólunum. Aðkoma þeirra skiptir svo miklu máli. Það gleymist oft að tala beint við börnin og unglingana,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags hjá Hafnarfjarðarbæ.
„Við erum þorpið og við þurfum að fá allt samfélagið með okkur. Það þýðir að við leysum málin með börnin í okkar liði.“
Vinna eftir Barnasáttmálanum
Þórunn er rétt að sleppa hendinni af aðgerðaráætlun svo Hafnarfjarðarbær geti státað af því að vera sveitarfélag sem vinnur eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allri stjórnsýslu og starfsemi sinni. Samþykki UNICEF áætlunina og svo bæjarstjórn kemst bærinn í hóp tveggja annarra sveitarfélaga sem þegar vinna eftir samkomulaginu.
„Það felur í sér að sveitarfélagið samþykkir að hafa Barnasáttmálann af leiðarljósi í starfi sínu. Rauði þráðurinn er að stuðla að virkri þátttöku barna í málum sem snerta þau. Það er til mikils að vinna. Þau eru jú framtíðin.“
Foreldrar byggi upp tengsl
Þórunn segir að passa verði að tengsl barna og fullorðinna trosni ekki á unglingsárunum. Foreldrar þurfi að vera öryggisnet barna sinna.
„Við þurfum að taka þátt í foreldrarölti þegar beðið er um það. Þannig stækka foreldrar tengslanetið. Við þurfum að skrá okkur sem bekkjafulltrúa, bera umhyggju fyrir vinum barna okkar og hvetja þau öll til að nýta starfið í félagsstöðvunum,“ segir hún.
Fylgjumst með börnunum
„Í félagsmiðstöðvunum eru mikilvægir fullorðnir einstaklingar sem þau geta leitað til. Það gerist svo margt á unglingsárunum. Við þekkjum börnin okkar og reynum að rýna í svörin sem þau gefa okkur. Það er ekki alltaf fínt þó að þau segi að allt gangi fínt,“ segir hún og gefur ráð.
„Við þurfum að hafa augun opin og fylgjast með breytingum. Eru breytingar á vinahópnum, aukinn pirringur? Þá þurfum við foreldrar að ræða við skólann og félagsmiðstöðvarnar. Það er svo miklu auðveldara þegar foreldrar tengjast, þeir þekkja kennarana og fólkið sem vinnur í félagsmiðstöðvunum. Þekkja hvernig innviðirnir virka.“