Rósa Guðbjartsdóttir, sem kjörin var á Alþingi í nóvember á síðasta ári, tilkynnti á bæjarstjórnarfundi nú undir kvöld, undir umræðum um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar, að hún ætli, fyrir næsta bæjarstjórnar fund, að biðjast lausnar frá störfum sínum í bæjarstjórn.
Töluverðar vangaveltur hafa verið um setu hennar í bæjarstjórn og formannsstöðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar samhliða fullu starfi sem þingmaður og hefur það þótt merki þess að hún treysti ekki samflokksfólki sínu að taka við en nú er að styttast í næstu bæjarstjórnarkosningar.
Sagði hún að nú væru 20 ár síðan hún tók þátt í sínu fyrsta prófkjöri og var klökk þegar hún minntist áranna nítján sem bæjarfulltrúi.
Rósa var bæjarstjóri frá 2018 og til síðustu áramóta.
Sjálfstæðisflokkurinn á 4 fulltrúa í bæjarstjórn og fyrsti varamaður er Guðbjörg Oddný Jónasdóttir. Ljóst er því að Skarphéðinn Orri Björnsson tekur við oddvitasætinu, a.m.k. fram að næstu kosningum.


