Vilja breyta leið 21 og auka ferðatíðni

Vagnarnir aki frá Hvaleyrarholti og komi við í Smáralind

Strætisvagn á Lækjargötu

Starfshópur sem umhverfis- og framkvæmdaráð skipaði í janúar sl. og hefur það hlutverk að endurskoða leiðakerfi innanbæjaraksturs í Hafnarfirði hefur lagt til að gerðar verði breytingar á akstursleið nr. 21 með það í huga að stækka uppland leiðarinnar og fjölga farþegum.

Núverandi leið 21 hefst í Firði og er eins og mynd hér að neðan sýnir:

Núverandi leið 21

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar:

  1. Leiðin byrji upp á Holti í stað þess að byrja í Firði
  2. Leiðin sleppi hringakstri inn að Firði en stoppi í staðinn á Lækjargötu eða Strandgötu
  3. Akstur um iðnaðarsvæði styttist og fari um Drangahraun í stað Hólshrauns
Tillaga að breyttri leið 21 í Hafnarfirði

Ennfremur leggur hópurinn til breytingar á leið 21 í kringum Smáralind þar sem mikilvægt er fyrir Hafnfirðinga að tengjast því svæði. Hér á myndinni að neðan má sjá tillögu að breyttu leiðakerfi við Smáralind.

Tillaga að breytingu á aksturleið við Smáralind

„Fyrir Hafnfirðinga er mikilvægt að tengjast svæðinu í kringum Smáralind og svæðinu þar í kring en þarna er núna staðsettur sýslumaður höfuðborgarsvæðisins, heimahjúkrun Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjaðrar og Smáralind auk þess sem fyrirhuguð er mikil uppbygging á reitnum.“

Einnig óskar ráðið eftir því að tíðni ferða á leiðinni verði aukinn í korters tíðni á annatímum og að leiðin sé ekin lengur á kvöldin og á sunnudögum.

„Leið 21 þjónar ekki bara Hafnfirðingum, vagnarnir aka í gegnum Garðabæ og hafa viðkomu í Kauptúni þar sem mikill vöxtur er í verslun og þjónustu auk þess sem Urriðaholtið er að byggjast hratt upp. Leið 21 hefur alla burði til að fjölga farþegum umtalsvert ef hugað er að því að bæta þjónustuna á leiðinni.“

Segir í bréfi til stjórnar Strætó bs. að fyrir Hafnfirðinga skipti miklu máli að þessar breytingar verði gerðar því þær búa til þann möguleika að fleiri noti Strætó.

„Eins og allir vita þá er lengd ferða og fjöldi skiptinga milli vagna það sem skiptir máli fyrir notendur. Erindi okkar er í beinu framhaldi af erindi af svipuðum toga eftir fund ráðsins í 29. apríl 2016 en nú höfum við lagt í enn frekari vinnu með leið 21 innanbæjar hjá okkur.“

Umhverfis- og framkvæmdaráð óskar eftir því við Strætó að tekin verði til skoðunar þessar tillögur að breytingum á leið 21 og telur mikilvægt fyrir starfshópinn að skoðuninni verði hraðað og svar berist sem allra fyrst.

Ummæli

Ummæli