fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirUngmenni mótmæla hækkun á verðskrá Strætó en fá engin svör

Ungmenni mótmæla hækkun á verðskrá Strætó en fá engin svör

60% hækkun á árskorti 12-17 ára

Í síðasta mánuði ályktaði Ungmennaráð Hafnarfjarðar um verðhækkanir Strætó og sendi ályktunina á stjórn Strætó og alla bæjarfulltrúa Hafnarfjarðar þann 23. nóvember síðastliðinn.

Óskaði ráðið eftir rökstuðningi frá fulltrúa bæjarins í stjórn Strætó og þess að erindið yrði tekið fyrir í bæjarstjórn.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar mótmælir hækkun á verði ungmennakorta í gjaldskrá Strætó

Í vikunni tók gildi ný verðskrá Strætó þar sem ungmennakort hækkuðu úr 25.000 kr. í 40.000 kr. Ungmennaráð Hafnarfjarðar bendir á að margt ungt fólk treystir á þjónustu Strætó til að komast til og frá skóla og vinnu. Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur talað fyrir því að þjónusta Strætó verði gjaldfrjáls fyrir börn og ungmenni, enda teljum við það mikilvægt til þess að hvetja ungt fólk til að nota Strætó. Hækkun gjaldskrár mun hafa þveröfug áhrif og hvetja ungt fólk og fjölskyldur þeirra til að velja frekar einkabílinn með tilheyrandi mengun og og neikvæð áhrif á loftslag jarðar.

Ungmennaráð hvetur stjórn Strætó til að endurskoða ákvörðunina og óskar einnig eftir rökstuðningi á henni frá fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar í stjórn Strætó.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar
Hafnarfirði, 16. nóvember 2021.

Engin svör hafa borist

Enn hafa engin svör borist Ungmennaráði og erindið ekki verið tekið fyrir, hvorki í bæjarstjórn né í bæjarráði. Ekkert svar hefur borist frá Strætó heldur.

Fulltrúi Hafnarfjarðar í stjórn Strætó bs. er Helga Ingólfsdóttir (D) bæjarfulltrúi.

60% hækkun á árskorti

Börn 12-17 ára greiða nú 245 kr. fyrir staka ferð sem er 50% afsláttur frá fullu gjaldi. Greiða þeir sama og 67 ára og eldri. Afsláttur á mánaðarkortum er líka 50% og greiða börn 12-17 ára nún 4.000 kr. fyrir mánaðarkort og 40.000 fyrir árskort.

Er hækkun á árskortum fyrir þennan aldur 60%

Árskort fyrir nema, 18 ára og eldri, lækkar hins vegar um 27% og kostar nú sama og fyrir 12-17 ára.

Umboðsmaður barna kallar líka eftir svörum

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til Strætó BS. vegna umtalsverðar hækkunar á árskortum til ungmenna. Sú hækkun er ekki talin samræmast bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu að mati umboðsmanns.

Fyrr á árinu tilkynnti Strætó bs., að strætóferðir yrðu framvegis gjaldfrjálsar fyrir börn 11 ára og yngri og fagnaði umboðsmaður þeirri breytingu mjög. Var talið að um fyrsta skref væri að ræða til að tryggja öllum börnum aðgang að gjaldfrjálsum almenningssamgöngum. Með þessari hækkun, sem er veruleg, er ljóst að svo er ekki.

Í bréfi umboðsmanns barna kemur meðal annars fram:

„Börn hafa lengi kallað eftir því að almenningssamgöngur verði gjaldfrjálsar og telja það vera mikilvægt jöfnunartæki sem stuðli að auknum tækifærum fyrir öll börn, auk þess að minnka loftmengum og bílaumferð. Þá ber þess sérstaklega að geta að gjaldfrjálsar almenningssamgöngur voru meðal þeirra atriða sem þingfulltrúar á fyrsta barnaþingi umboðsmanns barna lögðu sérstaka áherslu á árið 2019.“

Erindinu er meðal annars beint að eigendum Strætó sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en sem opinberir aðilar ber þeim að virða og innleiða ákvæði Barnasáttmálans. Meðal þess sem sáttmálinn gerir kröfu um er að tryggja það að allar ákvarðanir sem varða börn byggi á því sem þeim er fyrir bestu. Með hliðsjón af því óskar umboðsmaður barna eftir „upplýsingum um það, hvernig stjórn og framkvæmdarstjóri telja umrædda hækkun samræmast bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu og einnig óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum um það hvort og þá hvernig mat hefur verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar á þau börn sem ljóst er að hækkunin snertir hvað mest, þ.e. börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður.“

Bréf umboðsmanns barna til Strætó bs.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2