fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimLjósmyndirSeltún, sögustaður og náttúruperla - MYNDASYRPA

Seltún, sögustaður og náttúruperla – MYNDASYRPA

Hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn hér á landi – og ekki af ástæðulausu. Óvíða á landinu er litadýrðin meiri á háhitasvæðum en einmitt þarna; margir hverir,  bæði leir- og gufuhverir.

Nú eru fáir erlendir ferðamenn á landinu og nær einu ferðamennirnir sem þarna sjást eru íslenskir. Það voru aðeins tveir bílar á bílastæðinu í gær, á föstudeginum langa, þegar blaðamaður Fjarðarfrétta skoðaði svæðið.

Neðst má sjá fjölmargar myndir sem þá voru teknar á svæðinu.

Engar tekjur af svæðinu – ennþá

Hafnarfjarðarbær fékk 8 milljón kr. styrk árið 2017 frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til vinnu við frágang á bílastæði, stígagerð, göngupalla og uppsetningu skilta við hverasvæðið í Seltúni í Krýsuvík.

Nýlega var samþykkt að undirbúa innheimtu á bílastæði á svæðinu til að fá tekjur til viðhalds og uppbyggingar.

Hér má sjá eitt borholustæðanna í Seltúni.

Brennisteinsvinnsla og tilraun til hitaveituframkvæmda og jafnvel raforkuframleiðslu

Jarðhitarannsóknir fóru fram á Seltúnssvæðinu á fimmta ártatug síðustu aldar en áður hafði verið unninn brennisteinn á svæðinu.

Í Sögu Hafnarfjarðar kemur fram:

„Enginn vafli leikur á því að langverðmætustu hlunnindin í Krýsuvík er hitinn, sem þar er í jörðu“. Þá segir ennfremur: „Á árunum 1935 og 1936 athugaði svissneskur prófessor, sem hét Sonder, stóra gufuhverinn [Austurengjahver/Stórahver] í Krýsuvík, og reyndist hann vera 116° heitur á yfirborðinu. Prófessorinn taldi, að í hvernum væri ekki yfirborðsvatn, heldur gufa úr iðrum jarðar, þannig að unnt ætti að vera að auka vatnsmagnið og hitastigið með borunum. Hann lagði til, að hitastigið yrði aukið upp í 150-160°heita gufu og vatnið í Kleifarvatni hitað upp með henni og það síðan leitt þaðan 13-140° heitt til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. 

Sjónarmið forráðamanna Hafnarfjarðarbæjar var það, að ef Reykjavietan væri valin, væru loku fyrir það skotið , að Hafnfirðingar gætu um ófyrirsjáanlega framtíð fengið heitt vatn til upphitunar, því að Reykjavík væri þá ekki aflögufær, en yrði Krýsuvíkurveitan fyrir valinu, væri Hafnarfjörður í leiðinni, vatnið nóg og Hafnarfjörður fengi sína hitaveitu.“

Hugmyndin um sameiginlega hitaveitu fyrir Hafnarfjörð og Reykjavík frá Krýsuvík var úr sögunni árið 1942, þegar Reykjavíkurborg tók í notkun hitaveitu sem fékk vatn frá Reykjum í Mosfellssveit.

Nú beindust augu ráðamanna Hafnarfjarðar að þeim möguleika að hagnýta jarðhitann í Krýsuvík til raforkuframleiðlsu. Tilraunaboranir í því skyni hófust árið 1941 og í árslok 1951 lauk þessum þætti í sögu Krýsuvíkur án þess að bera tilætlaðan árangur.“ 

Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni,  rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til rannsóknarholunnar sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin.

Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum.  Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.

Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4.  Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn.

Mikil gufusprenging varð í borholu á svæðinu 10. febrúar 2019 en skemmdir urðu ekki miklar. Var svæðinu lokað í kjölfarið enda gaus holan eftir þetta. Í nóvember sl. var lokið við að steypa í holuna og loka henni.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, [Stórihver] er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum sem fyrr sagði, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er  ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum. Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu. Hann var hægra megin þar sem fyrst er gengið inn á hverasvæðið frá bílastæðinu. Svunta er ofar í gilinu, skammt norðan við tréhringpall.

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: „Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð. Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta  breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.“

Krýsuvík

Krýsuvík er jarðhitasvæði sunnan við Kleifarvatn. Það er fornt höfuðból sem lagðist í eyði á síðustu öld og komst í eigu Hafnarfjarðarbæjar árið 1941.

Krýsuvík er vinsælt náttúrusvæði, meðal sprengigíga eru Grænavatn og Gestsstaðavatn, og við Seltún og Kleifarvatn eru leirhverir. Krýsuvíkurbjarg er fuglabjarg niðri við ströndina, þar verpa um 57.000 sjófuglapör aðallega rita og svartfugl. Þar verpir einnig nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Jarðhitasvæði Krýsuvíkur

Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverhlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi. Þar má sjá gufustróka sem stíga til himins og sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og Hverahvammar sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell og eru hverasvæðin mjög ólík.

Hveravirknin er samfelldust í Hveradölum og við Seltún með gufuhverum og leirhverum. Á þessum stað er mikið um brennisteinshveri og er hæsti hiti í borholum um 230°c en ekki hefur verið borað dýpra en 1200m.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær norður í Kleifarvatns. Á þessari hitarák eru sprengigígjar sem gosið hafa gjalli. Stærsti gígurinn er um 100 m í þvermál og er staðsettur norðaustur af Stóra-Lambafelli. Við Kleifarvatn er ein 600 m djúp borhola og þar er hæsti hitinn um 160°C.

Hveravirknin í Trölladyngju er frekar dauf. Þar eru tveir hverir, gufur með brennisteini, hverasprengigígur og hitaskellur í Oddafelli. Á gossprungunum eru miklir gall- og sprengigígjar. Mesta jarðvegsbreytingin er í Sogum þar sem mikið af svæðinu eru ummyndað í klessuleir, þar eru líka miklir sprengigígjar allt frá fornöld og er ennþá í dag vatn í sumum. Tvær borholur eru í Trölladyngju, báðar um 260°c heitar ofarlega en önnur kólnar eftir því sem neðar er farið. Dýpri holan endar í 320°C á rúmlega tveggja km dýpi.

Uppruni nafnsins

Sagt er frá í þjóðsögu að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landmerki við nágrannakonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Þær töldu sig báðar vera beittar órétti og ákváðu að skera úr í deilimáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Þeim kom saman um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittust síðan á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en samið var um. Þær tóku þá að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Þessi saga um landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í hinum ýmsu myndum.

Heimild: Saga Hafnarfjarðar frá 1963, ferlir.is og Wikipedia

Hafnarfjarðarbær fékk 8 milljónir til frágangs á bílastæði, stígagerð og fleira við Seltún

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2