fbpx
Laugardagur, nóvember 2, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSamþykki á byggingaráformum knatthúss við Ástjörnina hefur verið felld úr gildi

Samþykki á byggingaráformum knatthúss við Ástjörnina hefur verið felld úr gildi

Umsagnar Umhverfisstofnunar ekki leitað fyrr en eftir að byggingaráform voru samþykkt

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 23. nóvember 2022 um samþykki byggingaráforma um byggingu knatthúss að Ásvöllum 1.

Tók nefndin fyrir afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 28. september 2022 um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu að Ásvöllum 3–5 og ákvörðunum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 23. nóvember og 21. desember 2022 um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1 og Ásvöllum 3-5.

Kröfu um ógildingu ákvarðana byggingafulltrúa um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 3-5 frá 21. desember 2022 var hins vegar vísað frá nefndinni. Kröfu um ógildingu afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa frá 28. september 2022 um samþykki framkvæmdaleyfis á sömu lóð var einnig vísað frá nefndinni.

Telur nefndin verulega annmarka á málsmeðferð og afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar vegna knatthúss að Ásvöllum 1 svo mikla að fella verði hana úr gildi

Umsagnar Umhverfisstofnunar skv. 54. gr. laga um náttúruvernd var ekki leitað fyrr en 5. desember 2022, en hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1 er frá 23. nóvemb2022. Telst það verulegur annmarki við meðferð málsins, en þegar lög áskilja að álitsumleitan fari fram áður en ákvörðun er tekin hefur í stjórnsýslurétti verið talið að um verulegan annmarka á meðferð máls geti verið að ræða, sé þess eigi gætt. Eru réttaráhrif þess annmarka eftir atvikum jafnað til þess að lögbundinnar umsagnar hafi ekki verið aflað.

Byggingarleyfi hefur ekki verið gefið út þó byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingaráform án þess að árita aðaluppdrætti. Þá hefur nefndin ekki fengið upplýsingar frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort gefið hafi verið út leyfi fyrir þeirri jarðvinnu sem þegar er hafið.

Úrskurðurinn í heild sinni

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 22. desember 2022, kæra eigendur, Blikaási 6, og eigandi, Erluási 1, Hafnarfirði, öll áform og kæranlegar ákvarðanir sem tengist byggingu knatthúss, bílastæða, fjögurra æfingavalla og tengdra framkvæmda upp við mörk friðlands Ástjarnar. Þá er gerð krafa um ógildingu framkvæmda- og byggingarleyfa á lóðinni Ásvellir 3–5.

Málskot kærenda til nefndarinnar verður að skilja svo að krafist sé ógildingar á ákvörðunum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar um samþykkt byggingaráforma, annars vegar á lóð Ásvalla 1 frá 23. nóvember 2022 og hins vegar á lóð Ásvalla 3–5 frá 21. desember s.á. Þá sé krafist ógildingar á þeirri afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 28. september 2022 um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu á síðarnefndri lóð. Loks er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 10. janúar 2023 fór eigandi, Blikaási 4, Hafnarfirði, fram á að vera á meðal kærenda í málinu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. janúar 2023.

Málavextir: Í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 kemur fram að íþróttafélagið Haukar hafi byggt upp fjölbreytta aðstöðu til íþróttaiðkunar á íþróttasvæði sínu að Ásvöllum sem sé u.þ.b. 16 ha að flatarmáli. Með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2020 um breytingu á aðalskipulaginu var landnotkun eins hektara svæðis á vesturmörkum þess breytt í íbúðarbyggð sem sameinaðist íbúðarbyggð Valla. Deiliskipulag Ásvalla, íþrótta- og útivistarsvæði Hauka er frá árinu 2004 og hefur því verið breytt í tvígang. Með breytingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2021 var skilgreind ný lóð vestan íþróttamiðstöðvar „innan íþrótta- og útivistarsvæðis undir íbúðir til að stuðla að fjölbreyttari landnotkun á svæðinu.“ Þá var byggingarreitur fyrir fjölnota knatthús færður nyrst á lóð Ásvalla „til að stuðla að betri nýtingu lóðar og svo byggingin raski sem minnst núverandi íbúðarbyggð í nágrenninu.“

Íþróttasvæði Hauka liggur að friðlandsmörkum Ástjarnar sem friðlýst var árið 1978 samkvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd. Verndarsvæðið var síðar stækkað árið 1996 með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið með skírskotun til 26. gr. sömu laga. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar kemur fram að flatarmál friðlandsins Ástjarnar sé 28,5 ha og fólkvangsins Ásfjalls sé 56,9 ha. Fyrri áform um knatthúsið fólu í sér að það yrði staðsett fyrir miðju íþróttasvæðisins, að hluta á fyrrgreindri lóð fyrir íbúðarbyggð, og að önnur skammhliða þess myndi snúa að fólkvanginum. Í kjölfar breytinga á skipulagi er nú gert ráð fyrir húsið verði nyrst á lóð Ásvalla, vestan megin við íþróttahúsið, og að önnur langhliða þess verði meðfram mörkum friðlandsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun barst stofnuninni 16. mars 2021 tilkynning frá Hafnarfjarðarkaupstað um fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.03 í 1. viðauka laganna. Leitaði stofnunin umsagnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu frá 13. júlí s.á. kom m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum.

Hinn 25. nóvember 2021 barst Skipulagsstofnun matsáætlun um uppbyggingu á íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum samkvæmt 21. gr. laga um um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, sbr. lið 10.01 í 1. viðauka laganna og fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Hafnarfjarðarkaupstaður lagði hinn 4. maí 2022 fram umhverfismatsskýrslu um uppbyggingu á svæðinu til kynningar og athugunar Skipulagsstofnunar, sbr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Framkvæmdin og skýrslan voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 2. júní s.á. og Fjarðarfréttum 8. s.m. og kom þar fram að allir gætu kynnt sér skýrsluna og lagt fram athugasemdir. Umhverfismatsskýrslan lá til kynningar hjá stofnuninni frá 2. júní til 15. júlí 2022 og var einnig aðgengileg á vefsíðu hennar. Umsagna var leitað hjá áðurgreindum stjórnvöldum ásamt Orkustofnun og Veðurstofu Íslands og bárust umsagnir frá þeim öllum og fleirum, þ. á m. frá þremur kærendum.

Í umhverfismatsskýrslu kom fram að í mati á umhverfisáhrifum væru til skoðunar þrír valkostir. Valkostur A væri fyrirhuguð uppbygging samkvæmt skipulagi sem gerði ráð fyrir að knatthús væri staðsett nyrst á athugunarsvæðinu og æfingarsvæði staðsett sunnan við núverandi gervigrasvöll. Syðst á svæðinu væri gert ráð fyrir þremur æfingavöllum sem væru sameiginlegir báðum valkostum. Þá væri íbúðarbyggð staðsett við núverandi íþróttamiðstöð Hauka en félli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Valkostur B væri fyrri hugmynd um uppbyggingu og fæli í sér staðsetningu mannvirkja samkvæmt eldra deiliskipulagi frá árinu 2010. Ef valkostur B yrði fyrir valinu yrði ekki úr frekari uppbyggingu íbúða. Núllkostur fæli í sér óbreytt ástand og að ekki yrði af framkvæmdum. Kom fram að núllkostur væri notaður sem grunnviðmið til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið og að með honum kæmi ekki til þeirra áhrifa sem aðrir valkostir hefðu í för með sér. Helstu áhrifin fælust í sjónrænum áhrifum vegna knatthúss, raski á eldhrauni og áhrifum á fuglalíf við Ástjörn sem hefði sýnt sig að væri viðkvæmt fyrir framkvæmdum.

Í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 23. september 2022 kom m.a. fram að það væri mat stofnunarinnar að verið væri að taka áhættu með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru, líkt og ráðgert væri, yrði kostur A fyrir valinu og að með hliðsjón af mögulegum áhrifum á Ástjörn og lífríki hennar væri valkostur B betri kostur.

Kærð ákvörðun í málinu er í samræmi við téðan valkost A, en hluti þess svæðis sem knatthús samkvæmt valkosti B hefði getað risið á er nú lóð fyrir íbúðarhús, þ.e. Ásvellir 3-5.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þær framkvæmdir sem fari fram á Ásvöllum brjóti gegn reglum um friðlýsingar. Samkvæmt 2. gr. auglýsingar um friðlýsingu Ástjarnar frá 1978 sé óheimilt að breyta náttúrulegu vatnsborði Ástjarnar. Þá sé samkvæmt 5. gr. auglýsingarinnar bannað að skerða gróður, trufla dýralíf og skaða varp. Þetta ákvæði eigi við óháð því hvaðan skerðingin eða truflunin komi. Hún geti verið upprunninn innan marka friðlandsins, frá mörkum þess eða jafnvel utan þess.

Fara kærendur fram á að framkvæmdir annars vegar að Ásvöllum 1 vegna knatthúss, bílastæða og fjögurra æfingavalla og hins vegar að Ásvöllum 3–5 vegna íbúðarhúsa verði stöðvaðar á meðan málið sæti efnismeðferð. Málefni beggja lóðanna séu samhangandi og ljóst sé að ef áfram verði haldið með íbúðabyggðina verði endanlega búið að útiloka annan þeirra tveggja valkosta sem lagt var mat á í ferli umhverfismats. Ljóst sé að framkvæmdir við byggingu knatthússins að Ásvöllum 1 séu hafnar. Verði þeim framhaldið muni það hafa óafturkræf áhrif á svæðið, friðlandið og fólkvanginn. Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir knatthúsið og því sé í reynd óheimilt að hefja framkvæmdir á svæðinu og breyti þar engu um þó byggingaráform hafi verið samþykkt. Uppi séu álitamál um lögmæti hinna kærðu ákvarðana sem gætu haft áhrif á gildi þeirra. Verði framkvæmdum haldið áfram sé kæran í reynd markleysa. Verulegum hagsmunum kærenda væri stefnt í hættu og erfitt yrði að ráða bót á tjóni þeirra ef ákvörðun byggingarfulltrúa um mannvirkið yrði síðar felld úr gildi.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Bæjaryfirvöld telja engar forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir. Byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir mannvirki sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag, álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir og nauðsynleg gögn sem fylgja þurfi byggingarleyfisumsókn. Við undirbúning, málsmeðferð og ákvörðun um byggingu knatthúss á Ásvöllum hafi öllum lögum og reglum sem við eigi verið fylgt, svo sem skipulagslögum nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013, lögum og reglugerðum um umhverfismat, lögum um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012, lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 og lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

Athugasemdir Byggingarfélags Gylfa og Gunnars: Af hálfu byggingaraðila Ásvala 3–5 er farið fram á að ekki verði fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem væri mjög íþyngjandi aðgerð sem hefði verulegan kostnað í för með sér. Jarðvegsframkvæmdir séu hafnar og fyrstu sökklar verði steyptir innan skamms. Samkvæmt deiliskipulagi sé heimilt á lóðinni Ásvellir 3–5 að byggja 100-110 íbúðir. Deiliskipulagið hafi fengið meðferð í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og sé kærufrestur vegna þess sé löngu liðinn.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka fyrri sjónarmið og benda á að vinnuvélum hafi fjölgað og byggingarframkvæmdum við knatthús sé fram haldið á svæðinu án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Þá liggi ekki fyrir umsögn Umhverfisstofnunar, sem sé þó áskilin samkvæmt 54. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, en sveitarfélagið hafi reynt að virða að vettugi skyldu til að leita umsagnar stofnunarinnar um bygginguna.

Vettvangsferð: Formaður úrskurðarnefndarinnar ásamt starfsmanni nefndarinnar kynntu sér staðhætti á vettvangi 12. janúar 2023.

Niðurstaða: Sótt var um leyfi til byggingar knatthúss að Ásvöllum 1 hinn 30. október 2022. Í fundargerð afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2022 kemur fram í A-hluta fundargerðarinnar um byggingarleyfi að lagðar séu inn teikningar dags. 26. október 2022 vegna byggingar knatthúss á Ásvöllum. Er eftirfarandi bókað: „Erindið er samþykkt í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010.“ Þá er tekið fram að við afgreiðslu hafi legið fyrir samantekt byggingarfulltrúa vegna afgreiðslu á byggingarleyfisumsókn fyrir knatthúsi Hauka á Ásvöllum, þar sem fjallað er m.a. um umhverfissjónarmið, friðlýsingu Ástjarnar og markmið náttúruverndarlaga. Verður með þessu að álíta að á fundinum hafi verið tekin ákvörðun sem kærð verði til nefndarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendur eru eigendur fjögurra fasteigna í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Standa fasteignir þeirra ofar í landi en fyrirhuguð mannvirki, en um leið í nokkurri fjarlægð frá þeim.

Fasteignir kærenda eru að lágmarki í 600 m fjarlægð frá áformaðri íbúðarbyggð að Ásvöllum 3–5. Munu mannvirkin verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda, þótt þau verði ekki mjög áberandi með hliðsjón af staðháttum. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi ef nokkur vegna þeirra. Að þessu virtu verður kröfu um ógildingu hinna kærðu ákvarðana um afgreiðslu framkvæmdaleyfis og samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 3–5 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að áliti nefndarinnar er ekki unnt að útiloka grenndaráhrif gagnvart sumum kærenda vegna byggingar knatthúss að Ásvöllum 1 enda er þar um að ræða stórt mannvirki sem verður áberandi í byggðinni, en áætlað er að það verði um 12.000 m² að flatarmáli og 23,8 m á hæð. Að virtum staðháttum verður ekki talið að grenndaráhrif útsýnisbreytinga vegna knatthússins séu með þeim hætti að þau geti varðað hagsmuni eigenda að Erluási 1 og Blikaási 6 umfram aðra og verður kröfu þeirra því vísað frá nefndinni. Á hinn bóginn er ekki unnt að útiloka að grenndaráhrif hins umdeilda knatthúss verði slík að varðað geti í verulegu hagsmuni eigenda að Blikaási 4 og 9 og verður þeim því játuð kæruaðild í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur leyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar 23. nóvember 2022 voru samþykkt byggingaráform vegna knatthúss Hauka að Ásvöllum 1. Byggingarfulltrúi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að aðaluppdrættir hafi þó ekki verið áritaðir á fundinum og séu af þeim sökum ekki aðgengilegir á vefsíðu bæjarins. Þar sem efni ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykki áformanna liggur ekki fyrir verður ekki talið að unnt sé að miða upphaf kærufrests við þá dagsetningu. Af þeirri ástæðu og þar sem byggingarleyfi hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir samkvæmt því af þeim sökum ekki hafnar verður kæra eiganda Blikaáss 4 talin nægilega snemma framkomin til þess að taka beri hana til efnismeðferðar.

——

Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að framkvæmdir séu hafnar við jarðvinnu að Ásvöllum 1 vegna knatthússins en hefur ekki fengið upplýsingar frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort gefið hafi verið út leyfi til þeirra framkvæmda sérstaklega.

Líkt og fram kemur í málavöxtum nýtur Ástjörn og svæði í kringum hana friðlýsingar. Í 54. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 kemur fram að ef starfsemi eða framkvæmdir, sem leyfis-skyldar séu samkvæmt öðrum lögum, geti haft áhrif á verndargildi friðlýsts svæðis skuli taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis og leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum kom fram um 53. gr. þess, nú 54. gr. laganna, sbr. 27. gr. laga nr. 109/2015, að greininni væri ætlað að tryggja að tekið yrði tillit til verndargildis friðlýsts svæðis þegar teknar væru ákvarðanir um starfsemi eða framkvæmdir utan svæðisins sem gætu haft áhrif inn á það. Þar geti t.d. verið um að ræða mengun, breytingar á vatnsflæði eða vatnsborði, áhrif á lífverur á friðlýsta svæðinu, útbreiðsla framandi tegunda, hávaði eða annars konar truflun. Taki greinin til ákvarðana um leyfi samkvæmt öðrum lögum og leiði af henni að verndargildi hins friðlýsta svæðis sé eitt af þeim atriðum sem skylt sé að leggja til grundvallar mati á því hvort leyfi skuli veitt. Þá segir þar ennfremur að gert sé ráð fyrir að umsagnar Umhverfisstofnunar sé leitað áður en ákvörðun er tekin.

Í umhverfismatsskýrslu hinnar kærðu framkvæmdar er áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd lýst og kemur fram í samantekt í skýrslunni að hún sé líkleg til að hafa óveruleg til talsvert neikvæð áhrif á landslag og ásýnd. Það eigi við um báða valkosti, A og B. Þá er m.a. tilgreint að helstu áhrifin séu sjónræn vegna knatthússins, áhrif á fuglalíf við Ástjörn og vegna rasks á eldhrauni. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eru áhrif þeirra á jarðmyndanir taldar verða talsvert neikvæðar, en þó tekið fram að stofnunin telji að þar sem hraunið á Ásvöllum sé mikið raskað þá hafi það að mestu glatað verndargildi sínu. Þá telur stofnunin að framkvæmdirnar séu líklegar til að hafa neikvæð áhrif á fuglalíf á og við Ástjörn. Áhrif af völdum knatthússins, valkostar A, verði varanleg en áhrif af völdum valkostar B ráðist af því hvert umfang æfinga á sama svæði verði. Skipulagsstofnun telji áhrif valkostar A á fuglalíf talsvert neikvæð en áhrif valkostar B óverulega neikvæð. Með vísan til þessa og þó einkum áhrifa á fuglalíf, verður að mati nefndarinnar talið að nægileg rök séu framkomin til að álíta að framkvæmdin geti haft áhrif á verndargildi hins friðlýsta svæðis við Ástjörn þannig að skylt sé að taka tillit til hennar og um leið leita lögskyldrar umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt skv. 54. gr. laga um náttúruvernd.

Fyrir úrskurðarnefndina hafa verið lögð samskipti milli Hafnarfjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar. Af þeim verður ráðið að 10. október 2022 vakti Umhverfisstofnun athygli bæjaryfirvalda á skyldu til þess að afla umsagnar um hina kærðu framkvæmd, skv. 54. gr. laga um náttúruvernd, áður en bæði framkvæmda- og byggingarleyfi væru veitt fyrir henni. Af hálfu bæjarins var bent á fyrri aðkomu stofnunarinnar, þ.e. við matsferli framkvæmdar sem og að grein yrði gerð, við ákvörðun um leyfisveitingar, fyrir afstöðu bæjarins gagnvart áliti Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrslu. Leiddi þetta til frekari samskipta og óskaði Hafnarfjarðarkaupstaður eftir umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 5. og 12. desember 2022, með vísan til 54. gr. laga um náttúruvernd og voru stofnuninni sendir aðaluppdrættir knatthússins og samantekt byggingarfulltrúa um afgreiðslu byggingarleyfisins. Hinn 21. s.m. óskaði stofnunin eftir að fá send drög að byggingarleyfi og benti á að henni hefðu aðeins verið  send framangreind gögn. Var því svarað til með því að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út né heldur lægju fyrir drög að því.

Fyrir liggur að umsagnar Umhverfisstofnunar skv. 54. gr. laga um náttúruvernd var ekki leitað fyrr en 5. desember 2022, en hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1 er frá 23. nóvember s.á. Verður að telja þetta verulegan annmarka við meðferð málsins, en þegar lög áskilja að álitsumleitan fari fram áður en ákvörðun er tekin hefur í stjórnsýslurétti verið talið að um verulegan annmarka á meðferð máls geti verið að ræða, sé þess eigi gætt. Verði réttaráhrifum þess annmarka eftir atvikum jafnað til þess að lögbundinnar umsagnar hafi ekki verið aflað, enda hafi hún þá engin réttaráhrif haft á úrlausn máls.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun frá 23. nóvember 2022 um samþykki byggingaráforma knatthúss að Ásvöllum 1 haldin slíkum annmörkum að fella verður hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 23. nóvember 2022 um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 1.

Kröfu um ógildingu ákvarðana byggingafulltrúa um samþykki byggingaráforma að Ásvöllum 3–5 frá 21. desember 2022 er vísað frá nefndinni. Kröfu um ógildingu afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa frá 28. september 2022 um samþykki framkvæmdaleyfis á sömu lóð er vísað frá nefndinni.

 

Skipulagsstofnun telur áhættu tekna með byggingu knatthúss við Ástjörn

Allar kæranlegar ákvarðanir kærðar!

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2