fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirRósa fékk fyrsta kortið

Rósa fékk fyrsta kortið

Hinn vinsæli Ratleikur Hafnarfjarðar er hafinn í 24. sinn

Hinn vinsæli Ratleikur Hafnarfjarðar er hafinn í 24. sinn.

Stendur hann yfir fram í september en hann gengur út á að þátttakendur fá vandað ratleikskort þar sem merktir eru inn á 27 staðir, vítt og breytt í bæjarlandinu. Þeir hafa svo allt sumarið til að leita að þessum stöðum en áberandi ratleiksmerki er á stöðunum.

Sum merkjanna eru inni í bænum og önnur í bæjarlandinu og jafnvel út fyrir það í einstaka tilfellum. Leikurinn er kjörin leið til að kynnast bæjarlandinu sem er svo fjölbreytt og hefur að geyma söguna, fjölbreytt náttúrufar og dýralíf. Fróðleikspunktar eru á kortinu og enn ítarlegri á vefsíðu leiksins, ratleikur.fjardarfrettir.is en Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur og leiðsögumaður hefur tekið þá saman. Hefur hann veitt ómetanlega aðstoð við gerð leiksins undanfarin ár en fáir þekkja sögu Reykjanesskagans betur en hann.

Ekki þarf alltaf að fara langt til að finna minjar eins og hér innan við Skarðshlíð.

Rósa fékk fyrsta ratleikskortið

Guðni Gíslason, umsjónarmaður Ratleiks Hafnarfjarðar afhenti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra fyrsta Ratleikskortið í síðustu viku en leikurinn er unninn af Hönnunarhúsinu ehf. í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Vandað ljósmyndakort léttir þáttakendum leitin

Sagðist Rósa nú ætla að láta verða að því að taka þátt í þessum fræðandi leik sem er góð hvatning til að upplifa hið frábæra uppland okkar Hafnfirðinga. Hún sagðist lengi hafa ætlað en einhverra hluta vegna hafi aldrei orðið að því.

Sennilega á þetta við fleiri og því tilvalið að nokkrir taki sig saman um að leita að ákveðnum fjölda merkja. Er ekki nokkur vafi á því að fljótlega verður áhuginn svo mikill að ekki er hægt að hætta fyrr en öll merkin eru komin í hús.

Guðni hvetur bæjarfulltrúa og þá sem koma að stjórnun bæjarins sérstaklega til að taka þátt í leiknum því hann leiðir fólk á staði sem mikilvægt er að njóti verndar sem mikið vanti upp á í dag. Þá sé mikilvægt að merkja fornminjar og merka staði og það sjái fólk svo vel þegar farið er á staðina. Segir hann göngur í upplandinu vera einstaklega nærandi og róandi og veðrið skipti í raun engu máli. Það skapi bara fjölbreytta upplifun og góður fatnaður og nesti mikilvægt.

Við sjávarströndina eru margir spennandi staðir eins og hér við Réttarkletta.

Þema leiksins er ekki óvænt í ár

Þema leiksins í ár er í takti við eldsumbrot á Reykjanesskaganum, hraun og hraunmyndanir og eru þátttakendur leiddir að fjölmörgum hraunum og þeim gefnar upplýsingar um aldur þeirra, nafn og fl.

Ekki þarf að fara langt til að finna glæsilegar hraunmyndanir frá hrauni sem rann á sögulegum tíma.

Frítt ratleikskort

Ratleikskortin má fá frítt víða, m.a. í Fjarðarkaupum, í Bókasafninu, í Ráðhúsinu, á sundstöðum og á bensínstöðvum.

Leikur fyrir alla fjölskylduna

Þessi ungi maður er þegar búinn að finna sitt fyrsta merki í ár. – Ljósm.: Þorbjörg Guðbrandsdóttir.

Ratleikur Hafnarfjarðar er vinsæll fjölskylduleikur og yngstu börnin sem hafa tekið þátt hafa verið á fyrsta ári. Börnin hafa oft dregið foreldrana með sér og jafnvel afa og ömmu en leikurinn hentar öllum sem á annað borð geta gengið í upplandinu. Eru allir hvattir til að prófa og þó svo reyndin hafi verið svo síðustu ár að flestir þeir sem skila lausnum, hafa farið á alla staðina, þá er það ekkert skilyrði. Markmiðið er að fá fólk til að skynja hversu dýrmætt umhverfi okkar er og mikil fegurð má finna svo nálægt okkur.

Fjöldi vinninga

Leikurinn stendur til 20. september en allir sem skila inn lausnum og mæta á uppskeruhátíð leiksins eiga möguleika á flottum útdráttarvinningum.

Frá Helgafelli

Til gamans er leiknum skipt í þrjá flokka, Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en þeir sem skila inn 9 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar og þeir sem skila inn 18 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Göngugarpur Ratleiks Hafnarfjarðar og þeir sem skila inn öllum 27 lausnunum geta hlotið sæmdarheitið Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar. Verða þrír í hverjum flokki dregnir út og fá glæsilega vinninga.

Ummerki eftir hersetuna eru víða en ómerkt.

Sem fyrr segir er leikurinn unninn í samstarfi við Heilsubæinn Hafnarfjörð en aðalstyrktaraðilar leiksins í ár eru Terra og Cintamani sem jafnframt gefur aðalvinningana. Origo, Von mathús, Fjarðarkaup, Gormur.is, Burger-inn, Penninn/Eymundsson, Músik og sport, Gróðrarstöðin Þöll, Rif restaurant, Ban Kúnn thai restaurant, Krydd veitingahús, Sundlaugar Hafnarfjarðar og Altis gefa einnig vinninga og styrkja þannig leikinn en það gera einni Fjarðarfréttir, Landsnet og HS veitur.

Nánari upplýsingar og fróðleik má finna á vefsíðu ratleiksins ratleikur.fjardarfrettir.is en þar má einnig finna Litla Ratleik Hafnarfjarðar, tvær útgáfur af honum en til að taka þátt í honum þarf ekkert kort.

www.facebook.com/ratleikur

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2