fbpx
Þriðjudagur, febrúar 27, 2024
HeimFréttirRáðherra afturkallar undanþágu fyrir rússneska togara

Ráðherra afturkallar undanþágu fyrir rússneska togara

Óverjandi er að viðhalda sérstökum undanþágum þeim til hagsbóta

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun um að afturkalla undanþágu sem hefur verið í gildi fyrir rússneska togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum.

Svandís Svavarsdóttir

„Það fer gegn hagsmunum Íslands að auðvelda veiðar annarra þjóða á stofnum sem ekki eru nýttir á sjálfbæran hátt, því hef ég ákveðið að afturkalla þessa undanþágu. Þessu til viðbótar er það mat íslenskra stjórnvalda að framferði Rússa sé með þeim hætti að óverjandi er að viðhalda sérstökum undanþágum þeim til hagsbóta,“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Samkvæmt lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands er  erlendum skipum óheimilt að koma til hafnar á Íslandi og fá hér þjónustu stundi skipið veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum og íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, svo sem hagar til um karfa á Reykjaneshrygg.

Heimild er í lögum til að veita undanþágu frá löndunar- og þjónustubanni vegna slíkra veiða og hefur rússneskum togurum sem stunda veiðar á karfa verið veitt slík undanþága frá árinu 1999. Fram til þessa hefur verið litið til heildarviðskiptahagsmuna við Rússland við mat á  þessari undanþágu. Á undanförnum árum hefur  ítrekað komið til skoðunar að afturkalla undanþáguna. Með hliðsjón af nýju mati á hagsmunum Íslands í samskiptum við Rússland vegna innrásar Rússlands í Úkraínu hefur ráðherra tekið ákvörðun um að afturkalla þessa undanþágu.

Rússneskum stjórnvöldum verður tilkynnt formlega um málið.

Ekki lokað á almenna löndun

Lúðvík Geirsson

Þeir 10-12 rússnesku togarar sem komið hafa til Hafnarfjarðar á hverju ári hafa bæði verið á karfaveiðum og grálúðuveiðum. Að sögn Lúðvíks Geirssonar, hafnarstjóra hjá Hafnarfjarðarhöfn hafa þeir verið að landa hér samtals 50-60 sinnum á ári og hefur þjónusta við þá verið mikilvæg fyrir Hafnarfjarðarhöfn.

Virðist bannið vera meira á tæknilegum nótum en mótmæli við innrás Rússa í Úkraínu sem þó er notað sem dropinn sem fyllir mælirinn.

Tveir rússneskir togarar eru í Hafnarfjarðarhöfn. Annar var að koma úr skipakvínni í dag og áætlað er að hinn fari í kvína eftir helgi til viðgerðar.

Lúðvík sagði ekkert samráð hafi verið haft við Hafnarfjarðarhöfn og kvaðst ekki vita hvernig ætti að útfæra bannið varðandi þjónustu við skipin sem hér eru í höfn. Fannst honum ekki líklegt að togararnir lönduðu hér ef þeir fengu aðeins að landa grálúðu.

Nú liggur fyrir svar frá ráðuneytinu eftir fyrirspurnir frá hafnarstjóra um að bannið nær eingöngu til löndunar á karfa en ekki öðrum tegundum s.s. grálúðu og hefur ekki áhrif á vetursetu eða aðrar þjónustu við skipin svo sem viðgerðir sem nú standa yfir.

Uppfært kl. 18.58

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2