Orðabönd er ný bók sem kom út 19. júní – á Kvenréttindadaginn og var sú dagsetning engin tilviljun þar sem um kvennaútgáfu er að ræða.
„Þetta er bók sem sprettur upp úr samveru og samræðu fimm kvenna sem hittust hjá skáldkonunni Vigdísi Grímsdóttur í heimsfaraldri, drukku í sig orðin hennar með kaffibollanum og ákváðu í kjölfarið að gefa sínum eigin orðum frelsi,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, ein haf höfundum bókarinnar.
Í bókinni eru 51 smásaga, örsögur og ljóð – eftir þær Brynhildi Auðbjargardóttur, Hrefnu Róbertsdóttur, Hrund Apríl Guðmundsdóttur, Steinunni Þorsteinsdóttur og Sveinbjörgu Sveinsdóttur. Allar tengjast þær Hafnarfirði með einum eða öðrum hætti – í gegnum frænkur og formæður, feður, sögn og sögu, vinnu og vöggur og svo miklu meira en það.
Orðabönd er kvennaútgáfa frá upphafi til enda: skrifuð af konum, hönnuð af konu, ritstýrð af konu, yfirlesin af konu – jafnvel letrið er hannað af konu. Eftirmálann skrifar Vígdís sem lýsir bókinni sem gjöf til allra sem njóta þess að lesa.
„Bókin skannar litróf lífsins; fegurðina, ljótleikann, gleðina, sorgina, allt þetta og miklu meira í dásamlegri fléttu alvarleika og húmors. Eftir lesturinn gengur maður í fjöru, hugleiðir óvænt formið og spennuna í tungumálinu, sér þá skyndilega glitta í eitthvað milli steina og kemur auga á perlu í opinni skel – og alveg eins og í ævintýri – starir maður í perluna og sér að inní henni, með örfínu letri, stendur Orðabönd. Ótrúlegt en alveg dagsatt. Bókin er gjöf til allra sem njóta þess að lesa…0147
Orðabönd er bók sem bindur saman orð og fimm konur – hugrökk, óvægin, heiðarleg og undurfalleg biður hún fólk að staldra við og njóta orðanna.
Hægt er panta bókina með því að senda póst netfangið kapurnar5@gmail.com