Nettó opnar græna verslun við Selhellu

Tölvumynd af nýrri verslun Nettó að Selhellu 1 og snýr þessi hlið að Reykjanesbraut.

Næsta haust mun Nettó opna nýja verslun að Selhellu 1, nýja húsinu á móts við húsnæði Icelandair.

Nettó tekur við verslunarrýminu í byrjun september og verður unnið hörðum höndum við að opna glæsilega verslun en með opnun þessarar verða Nettó verslanirnar orðnar 20 talsins auk miðlægrar netverslunar.

„Við höfum horft til Vallahverfisins í töluverðan tíma, þar er mikil uppbygging og við hlökkum verulega til að opna í haust. Staðsetningin er mjög spennandi og ljóst að þjónusta og fjölbreytni við íbúa hverfisins mun stórbatna. Þetta er fjórða græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað , allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir svo eitthvað sé nefnt. Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja. Við leggjum mikla áherslu á ferskvöruna og það fyrsta sem mætir þér er brakandi ferskt ávaxta- og grænmetistorg. Nettó er leiðandi í heilsusamlegum- og lífrænum vörum og fá þær vörur mikið rými. Á hverjum degi verður boðið upp á nýbakað brauð, ferskvörusvæðið okkar verður stórt og vöruúrvalið í heild sinni mjög gott,“ segir Hallur Geir Heiðarsson

Verslanir Nettó eru staðsettar á 20 stöðum á landinu og bætist nú glæsileg verslun við í Selhellu í Hafnarfirði. Nettó er í eigu Samkaupa hf. og var fyrsta lágvöruverslunin til að opna netverslun á Íslandi en verslanir Samkaupa orðnar rúmlega 60 talsins. Stöðug framþróun er innan félagsins og er til að mynda verið að  innleiða vildarkerfi sem gildir í öllum Nettó verslunum sem ber heitið Samkaup í símann og veitir viðskiptavinum fastan afslátt af innkaupum og aðgang að sértilboðum.

Samkaup reka verslanir sínar um allt land auk netverslunar sem þjónustar viðskiptavini sömuleiðis víðsvegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslunarmerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

Frá undirritun samnings um húsnæðið: Frá vinstri: Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Samkaupa, Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa, Sigurður E. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Smáragarðs, leigufélags og Hallur Geir Hallsson, rekstrarstjóri Nettó.

Ummæli

Ummæli