fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirAtvinnulífNettó opnaði í morgun nýja verslun á Völlunum

Nettó opnaði í morgun nýja verslun á Völlunum

Nettó opnaði í morgun nýja verslun við Selhellu, í sama húsnæði og leigumarkaður Byko er. Þetta er fjórða græna verslun Nettó, mjög rúmgóð verslun með sérstaka áherslu á glæsilegt ávaxta- og grænmetistorg og með eina glæsilegustu heilsuvörudeild landsins.

Þó verslunin sé í einu horni hússins þá er verslunin mjög stór og rúmgóð sem segir meira um stærð hússins.

Nettó verslanirnar eru því orðnar 20 talsins. Forsvarsmenn Nettó kalla þetta græna verslun, sem þýðir að allt kapp er lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar.

Heiðar Rúnar Birnuson, rekstrarstjóri Nettó og Helga Dís Jakobsdóttir, þjónustu- og upplifunarstjóri Nettó

„Verslunin er hin glæsilegasta og við höfum hlakkað mikið til að opna dyrnar fyrir íbúum þessa ört vaxandi hverfis. Við erum einstaklega stolt af því að geta opnað hér græna verslun þar sem öll tæki og starfsemi eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, kælikerfi sem keyrt er á koltvísýringi (CO₂), en um ræðir umhverfisvænan kælikost. Keyrt verður eingöngu á LED lýsingu og allir frystar og kælitæki lokuð, en það eitt og sér stuðlar að gífurlegum orkusparnaði samanborið við hefðbundin kælitæki og því sannarlega framtíðin hjá okkur. Við sjáum einnig fyrir okkur að þegar fram í sækir verði öllum kælitækjum Nettó skipt út fyrir þessa gerð kælitækja og því gaman að geta boðið viðskiptavinum á Völlunum upp á þennan umhverfisvænsta kost sem völ er á í dag,” segir Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó.

„Nettó hefur um árabil verið leiðandi í heilsusamlegum – og lífrænum vörum og sjást áherslurnar skýrt í þessari nýjustu verslun fyrirtækisins. Mikill metnaður hefur verið lagður í heilsudeildina við Selhellu, sem nú er ein glæsilegasta heilsudeild landsins og stendur öðrum sannarlega framar í fjölbreyttu vöruúrvali,” segir Heiðar Róbert.

Í samtali við Helgu Dís Jakobsdóttur, þjónustu- og upplifunarstjóra Nettó kom fram þó að lögð sé áhersla á sjálfsafgreiðslukassa og Nettó appið þá sé það ekki gert til að fækka starfsfólki. Engu starfsfólki hafi verið sagt upp vegna þess en fólk þess í stað fært í aðrar stöður þar sem það getur betur þjónustað viðskiptavini. Benti hún á að allar verðmerkingar væru rafrænar í versluninni sem geri það að ekki þurfi að breyta handvirkt út í búð þegar verð breytist. Sagði hún mikla áherslu vera lagða á góða upplifun viðskiptavina í versluninni.

Samkaup reka yfir sextíu verslanir sem staðsettar eru víðsvegar um landið undir vörumerkjum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland. Auk þess að halda úti Samkaupa-appinu, sem er eitt stærsta vildarkerfi á landinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2