Mikil stemming á fjölmennu konukvöldi í Firði – Myndasyrpa

Svala Björgvinsdótir lék á alls oddi í heimabæ.

Langt er síðan hægt hefur verið að halda hin vinsælu konukvöld í Firði, en í gær, föstudag, var loksins blásið til fagnaðar og aðsóknin var vonum framar að sögn Guðmundar framkvæmdastjóra í Firði. Löng röð var komin þó langt væri í að afhentir væru 100 glæsilegir gjafapokar. Í einum þeirra leyndist flugferð til sólarlanda og því til mikils að vinna.

Mikið var um að vera, verslanir voru með sértilboð og buðu upp á veitingar og fjölbreyttar vörukynningar voru á göngum verslunarmiðstöðvarinnar. Vigga og Sjonni héldu uppi góðri stemmingu og Eyþór Ingi, Bjarni Ara og Svala Björgvinsdóttir kitluðu söng-og danstaugar gestanna og stemmingin var mjög góð. Starfsmenn Rifs voru á útopnu við að þjóna matargestum en færri komust að en vildu.

Verslunareigendur voru ánægðir með kvöldið og víða var sala langt umfram væntingar.

Fjörður lagði mikið í kvöldið, Fjarðarfréttir voru með aukablað til að kynna það og að þessu sinni tóku verslanir í miðbænum þátt líka.

Ummæli

Ummæli