Miðvikudagur, október 15, 2025
HeimFréttirMedina Huzhva er þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2025

Medina Huzhva er þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2025

Metþátttaka var í 29. Ratleik Hafnarfjarðar

Aldrei hafa jafn margir skilað inn öllum 27 lausnunum í sögu Ratleiks Hafnarfjarðar sem á sér sögu til baka allt til 1996.

27 ratleiksmerkjum er komið fyrir á jafn mörgum stöðum í bæjarlandinu og þátttakendur fá kort þar sem staðirnir eru merktir. Þrautin er að finna þessa staði og skrá hjá sér lausnarorð. Hafa þátttakendur tæpa 4 mánuði til verksins og geta skilað inn ef þeir finna að lágmarki 9 merki.

Rúmlega 200 manns mættu á uppskeruhátíðina.

Þrautakóngar sem skiluðu öllum lausnum

Í ár skiluðu 306 einstaklingar inn lausnarblaði sem er tvöföldun á síðustu tíu árum. Skiluðu 179 inn lausnarblaði fyrir öll merkin sem er 19% aukning frá í fyrra og metfjöldi. Teljast þeir Þrautakóngar en dregið er um þrenn verðlaun og varð Medina Huzhva úr Garðabæ hlutskörpust og er því Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2025 og hlaut hún vandaða Scarpa gönguskó frá Fjallakofanum í verðlaun.

Madina Huzhva er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2025.

Göngugarpar sem skiluðu a.m.k. 18 lausnum

Það var líka metfjöldi sem skilaði 18 lausnum en 81 getur nú kallað sig Göngugarp sem er 17% fleiri en nokkru sinni fyrr. Þar var líka dregið um þrenn verðlaun og er Hafnfirðingurinn Ágúst Haraldsson Göngugarpur og hlaut hann 4 vikna kort í TRX/RobeYoga hjá Elín.is og Petzl höfuðljós frá Fjallakofanum í verðlaun.

Ágúst Guðmundsson er Göngugarpur Ratleiks Hafnarfjarðar 2025.

Léttfetar sem skiluðu a.m.k. 9 lausnum

Þeir sem skiluðu a.m.k. 9 lausnum fá nafnbótina Léttfetar en þeir voru 46 í ár, færri en oft áður. Þar var líka dregið um þrenn verðlaun og er Hafnfirðingurinn Dúi Ólafsson Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar 2025. Fékk hann að launum þriggja rétta máltíð fyrir tvo á Von mathúsi að verðmæti 21.800 kr.

Dúi Ólafsson er Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar 2025.

Það skila ekki allir inn lausnum

Markmiðið með Ratleik Hafnarfjarðar er að hvetja til útivistar og náttúru­skoðunar í fjölbreyttu landi upplands Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni. Við það að fólk taki þátt í leiknum er markmiðinu náð. Engin skylda er að skila lausnarblaði en það hjálpar til við að upplýsa um þátttöku í leiknum. Vitað er að fjölmargir skila ekki lausnum og þeir sem ná ekki að finna 9 merki geta ekki skilað inn.

Glæsileg verðlaun

Verðlaunin draga þó fólk til að skila og yfir 200 manns mættu á uppskeruhátíð Ratleiksins sem haldin var að þessu sinni í veislusal Ásvalla þar sem hópurinn var orðinn of stór fyrir Hafnarborg. Leikurinn er haldinn af Hönnunarhúsinu ehf. í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Bæjarbakarí var svo rausnarlegt að styrkja leikinn með tveimur stórum glæsilegum súkkulaðikökum sem hurfu ofan í gesti sem renndi þeim niður með drykkjum í boði Hafnarfjarðarbæjar.

Næstum helmingur þeirra sem mætti á uppskeruhátíðina fékk glaðning.

Vinningar í ár voru að verðmæti um hálf milljón kr. sem allir eru gefnir af stuðningsaðilum Ratleiksins. Má þar nefna Hafnarfjarðarbæ, Fjallakofann, Rif, Elín.is, Von mathús, Altis, Bæjarbakarí, Fjarðarkaup, Músik og sport og Gróðrarstöðina Þöll en alls gáfu 18 aðilar vinninga. Ekki aðeins fengu þrír í hverjum flokki vinning, heldur var fjöldi útdráttarvinninga fyrir þá sem mættu auk þess sem allir krakkar undir 12 ára aldur fengu glaðning frá Hafnarfjarðarbæ.

Verðlaunahafar

Þrautakóngur:

  1. Medina Huzhva
  2. Ólafía G. Jónsdóttir
  3. Andri Fannar Guðmundsson

Göngugarpur:

  1. Ágúst Haraldsson
  2. Brynja Guðmundsdóttir
  3. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Léttfeti:

  1. Dúi Ólafsson
  2. Kristín Steinsdóttir
  3. Halldór Andri Halldórsson

39 fengu útdráttarverðlaun og má finna lista yfir þá á vef Ratleiksins

Auk þessu fóru 47 gjafir til barna sem tóku þátt í leiknum.

Öll börn sem tóku þátt og mættu á uppskeruhátíðina fengu glaðning.

Þrítugasti Ratleikurinn á næsta ári

Þrítugasti Ratleikur Hafnarfjarðar verður á næsta ári en það var Pétur Sigurðsson sem fór af stað með fyrsta leikinn árið 1996. Við honum tók Jónatan Garðarsson árið 2004 og lagði hann í þrjú ár er Guðni Gíslason tók við honum að beiðni Hafnarfjarðarbæjar og hefur haldið honum úti síðan. Fyrirtæki hans, Hönnunarhúsið ehf. sá um útgáfu kortsins og umsjón leiksins árið 2006 og samstarfssamningur við Hafnarfjarðarbæ var svo gerður árið 2019. Ómar Smári Ármannsson, sérfræðingur í sögu byggðar á Reykjanesi hefur veitt ómetanlega aðstoð við leikinn en hann heldur úti fróðleikssíðunni Ferlir.is

Þátttakendur eru á öllum aldri og er hann mjög vinsæll fjölskylduleikur.

Næsti leikur verður svo hinn 30. í röðinni og má búast við að þá verði blásið í lúðra.

Nánari upplýsingar má finna á https://ratleikur.fjardarfrettir.is og á Facebook.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2