fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífUngir skátar tína upp rusl og huga að heimsmarkmiðunum

Ungir skátar tína upp rusl og huga að heimsmarkmiðunum

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er ofarlega í huga skátanna í Fenri flokknum í skátasveitinni Riddurum.

Þeir eru að undirbúa sig fyrir Landsmót skáta sem haldið verður í Kjarnaskógi á Akureyri í sumar en þar verður mikil áhersla lögð á þessi heimsmarkmið.

Eitt af undirbúningsverkefnum ungu skátanna í Fenri var að hreinsa rusl á svæði á og við Víðistaðatún. Þeir Logi, Smári og Þórður, þrír félagar úr flokknum hittu blaðamann Fjarðarfrétta í skátaheimilinu Hraunbyrgi þar sem þeir upplýstu um hreinsunina.

Þórður, Logi og Smári

Þeir sögðu að þeir hafi fundið minna rusl vegna þess að snjór lá yfir öllu en tíndu þó í fullan stóran svartan plastpoka auk þess að draga með sér stórt plaströr og gúmmímottu. Gúmmímottuna fundu þeir í tveimur bútum, alllangt frá hvorum öðrum og undruðust þeir hvernig svona þung motta fyki svona langt. Sögðu þeir að venjulega sé mikið drasl að finna í hrauninu og inni í runnum við Víðistaðatún þar sem þeir eru mikið í sínu skátastarfi.

Þrátt fyrir snjóinn var margt að finna, kassar undan morgunkorni, pappír, plast og voru þeir mjög undrandi yfir því að fólk skuli henda svona miklu drasli frá sér og að fólk meti ekki umhverfið meira.

Sögðust þeir hafa leitað upplýsinga á netinu og sögðu mikilvægt að allir tækju höndum saman við að vernda náttúruna því ef ekkert yrði að gert færi illa. Sögðu þeir að á hverju ári væru framleidd 78 milljón tonn af plastumbúðum og talið væri að um 32% af því endaði í sjónum.

Töldu þeir að við ættum að nýta hluti betur og ekki henda strax ef eitthvað bilar því það væri mjög umhverfisvænt að gera við hluti í stað þess að henda þeim og kaupa nýja. Þá væri mikilvægt að huga að því að eitt sælgætisbréf skipti máli. Ef allir íbúar jarðarinnar, 7,8 milljarður manns, hentu frá sér einu sælgætisbréfi þá yrði það gríðarlegt magn.

Hvetja þeir bæjarbúa að passa upp á sitt rusl, setja smádrasl í vasann og taka annað með sér. Saman getum við gert umhverfi okkar mun betra.

Mótssvæðið er gríðarlega stórt þar sem skátarnir byggja í raun upp heilt samfélag á Landsmóti skáta.

Þremenningarnir eru eins og áður segir á leið á Landsmót skáta með félagi sínu Hraunbúum en skátamótin eru mikill ævintýraheimur þar sem dvalið er í tjöldum og allir fá einhverja ábyrgð. Dagskráin er fjölbreytt og flokkarnir velja sér verkefni sem eru ótrúlega fjölbreytt og allir upplifa eitthvað nýtt. Yfirskrift mótsins er Byggjum betri heim.

Frá Landsmóti skáta

 

Sögðust þeir muni fara í útilegur til að undirbúa sig en eitt af markmiðum skátastarfs er að gera skátana að sjálfstæðum, virkum og ábyrgum einstaklingum í samfélaginu.

Ævintýraheimur skátans

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2