fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimÁ döfinniTónleikar og námskeið á Sönghátíð í Hafnarborg

Tónleikar og námskeið á Sönghátíð í Hafnarborg

Skráning hafin á námskeið Sönghátíðar í Hafnarborg

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri. Há­tíðin stendur yfir 7.-15. júlí og er hluti af Fullveldishátíð 1918-2018. Boðið er upp á sjö tónleika og fjögur námskeið. Á tónleikunum koma fram m.a. Kristinn Sigmundsson, Þóra Einarsdóttir, Symphonia Angelica, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Björk Níelsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Funi, Duo Atlantica og sönghóparnir Cantoque og Olga Vocal Ensemble. Hátíðin heldur úti YouTube­stöð með viðtölum við söngvara um söngtækni. Stjórnendur Söng­hátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui.

Skráning er hafin á námskeiðin sem verða í Hafnarborg. Ingibjörg Fríða og Sigurður Ingi leiða tónlistarsmiðjur fyrir krakka, Guðrún Jóhanna Ólafs­dóttir mezzósópran kennir á söngnámskeiði fyrir áhugafólk, Kristinn Sigmundsson bassi kennir á masterclass námskeiði fyrir unga söngvara en Bára Grímsdóttir og Chris Foster í Funa leiða áhugafólk um íslenskan þjóðlagasöng á nám­skeiðinu Syngjum og kveðum saman.

Tónlistarsmiðja fyrir 6-9 ára

Í tónlistarsmiðjunni 9.-14. júlí verður aðaláherslan lögð á skapandi og skemmtilega vinnu með þjóðsögur og þjóðlög. Hvað er þjóðlag? Eru öll þjóðlög um tröllskessur og álfa? Er hægt að búa til þjóðsögu? Þátttakendur kynnast þjóðlögum og sögum frá Íslandi og öðrum löndum í gegnum leik, spuna og tónlistarvinnu með leiðbeinendum. Saman munu krakkarnir undirbúa atriði og koma fram á lokatónleikum Sönghátíðar. Námskeiðið er fyrir öll börn á aldrinum 6-9 ára, sem hafa gaman af sögum og tónlist, hvort sem þau hafa tónlistarbakgrunn eða ekki.

Söngsmiðja fyrir 10-12 ára

9.-14. júlí verður söngsmiðja fyrir krakka á aldrinum 10-12 ára, sem elska að syngja og spila tónlist! Þau fá þjálfun í að læra lög eftir eyranu, búa til eigin útsetningar, syngja í röddum, syngja í keðjusöng og að semja sín eigin lög. Íslensk þjóðlög og þjóðsögur verða rauður þráður í gegnum námskeiðið enda hafa Íslendingar sungið sig í gegnum lífið í mörg hundruð ár. Þátttakendur kynnast þjóðlögum og sögum frá Íslandi og öðrum löndum í gegnum leik, spuna og tónlistarvinnu með leiðbeinendum. Saman munu krakkarnir undirbúa atriði og koma fram á laugardagstónleikum Sönghátíðar.

Söngnámskeið fyrir áhugafólk

Á námskeiðinu 7.-8. júlí fer mezzósópraninn Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir í ýmislegt varðandi söngtækni, svo sem líkamsstöðu, öndun, stuðning, sérhljóðamyndun, að syngja hreint, hátt og lágt, veikt og sterkt. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að syngja, t.d. í kór, en eru ekki í formlegu söngnámi. Aldurslágmark er 13 ár, en það er ekkert aldurshámark.

Master class með Kristni Sigmundssyni

Einn af reyndustu söngvurum Íslands fyrr og síðar, bassasöngvarinn Kristinn Sigmundsson, mun kenna langt komnum söngnemendum og ungum söngvurum á master class námskeiði 9.-12. júlí. Píanóleikari námskeiðsins er Matthildur Anna Gísladóttir. Námskeiðið er fullt fyrir virka þátttakendur, en hægt er að fylgjast með sem hlust­andi.

Syngjum og kveðum saman, 13. júlí

Bára Grímsdóttir og Chris Foster í Funa leiða þátttakendur í því að syngja og kveða stemmur, tvísöngslög og fleiri íslensk þjóðlög.  Öll lögin verða kennd eftir heyrn en þau verða einnig til á nótum fyrir þá sem vilja.

Öll námskeiðin fara fram í Hafnarborg, Strandgötu 34 og er skráning á hafnarborg@hafnarfjordur.is. Nánari upplýsingar á songhatid.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2