fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífSpilar á Hróaskeldu í sumar

Spilar á Hróaskeldu í sumar

Hafnfirski tónlistarmaðurinn Andri Björn Birgisson

Hafnfirski tónlistarmaðurinn Andri Björn Birgisson er annar tveggja gítarleikara hljómsveitinnar Auðnar sem var stofnuð 2010. Hljómsveitin kom fram í Tónlistarþróunarmiðstöðinni í allra fyrsta skipti, sem er vettvangur fyrir unga tónlistarmenn til að skapa, taka upp og flytja tónlist gegn vægu verði. Svo spiluðu þeir fyrsta skemmtistaðagiggið sitt á litlu sviði á Íslenska Rokkbarnum að Dalshrauni 13.

Auðn er sú hljómsveit sem hefur náð hvað mestum árangri af þeim sveitum sem að hafa tekið þátt fyrir Íslands hönd í Þýskalandi, á Wacken Open Air þungarokkskeppninni.

Hljómsveitir 29 landa tóku þátt. Meðlimirnir gerðu sér ekki miklar vonir um að hafna í sérstöku sæti. Aðallega þótti þeim heiður að fá að taka þátt. Þó vöktu þeir augljóslega miklar tilfinningar með flutningi sínum því þeir náðu 3. sætinu. Sem þótti mikill sigur fyrir hljómsveit sem kemur frá þjóð sem hefur minna en hálfa milljón íbúa. Talið er að um fimm til sjö þúsund manns hafi séð drengina á sviðinu. Seinna leiddi þessi árangur til enn frekari velgengni sveitarinnar.

Ekki verið neitt lát á ferðalögum eða bókunum síðan þá

Framundan eru svo tónleikar í Svíþjóð, Noregi og Hollandi á hátíð sem margir Íslendingar þekkja vel – Roadburn og svo á hinni sívinsælu tónleikahátíð, Hróarskeldu í Danmörku. Svo að sjálfsögðu mæta þeir fyrstu vikuna í júlí á „ættarmót“ og tónleikaveislu íslenskra metalunnenda, Eistnaflug í Neskaupsstað.

Þó vinnur Andri enn hjá póstinum á daginn. Sem segir okkur hversu „ótrúlega tvöföldu lífi hinn venjulegi póstmaður“ getur lifað. Nóg er þó að gera hjá strákunum. Því í kjölfar sigursins fengu þeir svo samning við útgáfufélagið Season of Mist. Útgáfufélag sem þungarokksbandið Sólstafir eru einnig skráðir hjá.

Við settumst niður með honum og fengum innlit í heim Andra, núna tæpu hálfu ári eftir Wacken ferðina og spurðum hann hvernig hljómsveitin hafi þróast.

„Það bara vindur alltaf uppá sig. Maður er komin fram úr öllum væntingum fyrir löngu. Það er enginn endir á þessu, þetta virðist bara ætla upp.“

Hvað dettur þér helst í hug að sé það skemmtilegasta sem þú hefur upplifað eftir að þú byrjaðir í hljómsveit?

„Þegar Walter, sem sér um tónleikahátíðina Roadburn, kom til okkar eftir tónleikana okkar á Eistnaflugi og bauð okkur að koma að spila fyrir sig á Roadburn.“

Finnur þú mikið fyrir fullkomnunaráráttu þegar þú ert að þróa nýtt efni?

„Já, þegar maður er farinn að finna að stundum þegar það getur tekið meira en þrjú ár að fullkomna eitt lag, að þá getur verið að maður sé svolítið líklegur til þess. Oftar en ekki vill það taka lengri tíma en maður myndi vilja…“

Fyrsta plata Auðnar fékk mikið lof gagnrýnenda. Gítar: Aðalsteinn Magnússon og Andri Björn Birgisson. Raddir/söngur: Hjalti Sveinsson. Bassi: Hjálmar Gylfason. Trommur: Sigurður Kjartan Pálsson.

Þeir fengu góðar viðtökur á plötunni Auðn, sem gefin var út í nóvember 2014 

Aðspurður segir Andri að hljómsveitarlífið hafi haft mikil áhrif á hann sem manneskju. Að það gefi honum gildi að eitthvað sem hann skapar í samvinnu við aðra, verði raunverulega einhvers virði. Og að auðvitað skipti það einnig máli að allir finni að það sem hann gleymi sér í, beri ávöxt.

Hvaða ákvarðanir hafa kennt þér mest af hljómsveitarbrölti? „Ef þú ert að fara að spila á tónleikahátíð erlendis, ekki kaupa miðana út fyrr en þú veist pottþétt að hátíðinni verði ekki frestað,“ segir hann brosandi.

Hvað er eitt af því sem skiptir mestu máli að einbeita sér að sem tónlistarmaður?

Að reyna að vera í núinu. Og að að æfa mikið, stilla lögin svo vel í vöðvaminnið að það verður nánast ekki hægt að gleyma því hvaða „riff“ kemur næst, því mikilvægt sé að flutningurinn komi sem best út. Þannig að það geti verið alveg sama hvað maður er þreyttur, hreyfingin verði ómeðvitað stimpluð inní hendina. Ekki er heldur verra að hafa þol fyrir biðunum og einstaka svefnleysi sem fylgi tónleikabrölti.

Hver er lærdómsríkasta jákvæða reynslan?

„Að þurfa að taka upp disk, semja og gera hlutina. Ekki vera endalaust að pæla í hlutunum. Þú lærir ekkert á því.“ Svo þegar hann ræddi um það hvernig boltinn byrjaði að rúlla hjá honum lýsti hann hvernig þetta hafði verið þegar hann hafði bara verið einn að semja heima og ákveðið að senda það út í „kosmósinn“: „Í rauninni var stærsta ákvörðunin að prófa að setja það sem ég var að semja (áður en að bandið byrjaði) á netið. Og þora að vona það besta. Sem endaði með því að strákarnir höfðu samband við mig.“

Hljómsveitin Auðn í öllu sínu veldi

Og þannig varð bandið til. Einn ískaldan vetrardag í bústaðarferð, þar sem þeir höfðu ákveðið að koma sér saman og láta hugmyndir sínar púslast í eins mikið ævintýri og hægt var. Einingin varð til. Úr varð svartmálmslagið Sífreri, sem var spilað í útvarpi í fyrsta skipti vorið 2013.

Þeir eru að vinna í annari plötu hljómsveitarinnar um þessar mundir, sem er áætluð að komi út seinni hluta þessa árs.

Hér má finna facebook og bandcampsíðu þeirra:

https://www.facebook.com/audnofficial/

https://audnofficial.bandcamp.com/

Soffía Hrönn

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2