fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024

Rauð silkinærföt

Nýtt hafnfirskt leikrit

Hafnfirski leikhópurinn Listahópurinn Kvistur sendir frá sér nýtt hlaðvarpsleikrit, þar sem þau bjóða áheyrendum upp á frumsýningu heima í stofa. Leikritið samdi Eygló Jónsdóttir rithöfundur og framhaldsskólakennari. Verkið heitir Rauð silkinærföt og fjallar um hjón og vin þeirra sem eru á leiðinni að skoða eldgos þegar gerir allt í einu ofsaveður og ýmislegt óvænt um samband þeirra kemur í ljós.

Leikarar eru Gunnar Jónsson, Hildur Kristín Thorstensen, Óskar Harðarson, Eyrún Ósk Jónsdóttir og Kristján Hans Óskarsson.

Afhverju hlaðvarpsleikrit?

Eyrún Ósk Jónsdóttir

„Þetta byrjaði þannig að ég og Gunnar Jónsson leikari vorum að æfa spunaverk sem við hugðumst setja upp, í leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen, þegar heimsfaraldurinn skall á með samkomubanni og öllu sem því fylgdi. Þá máttu leikhópar hvorki æfa né sýna, og því datt okkur í hug að prófa að æfa í gegnum fjarfundabúnað, hver heima hjá sér. Það tókst svona ljómandi vel og spunnum við allt leikritið bara í gegnum tölvuna. Við ákváðum síðan að koma verkinu frá okkur með sama hætti, og tókum það upp og gáfum það út sem hlaðvarpsleikrit. Síðan þá höfum við haldið ótrauð áfram í gegnum hverjar samkomutakmarkanir á eftir annarri, að æfa og skapa með aðstoð tækninnar og bjóða upp á frumsýningar á nýjum verkum heima í stofu,“ segir Eyrún.

Þetta er þriðja hlaðvarpsleikritið sem leikhópurinn sendir frá sér, og þriðja verkið sem þau æfa í gegnum fjarfundabúnað. Að þessu sinni fóru upptökur fram í rabbrýminu á bókasafni Hafnarfjarðar, en þar býðst Hafnfirðingum kostur á að taka upp Hlaðvörp í fullbúnu hljóðstúdíói.

„Fyrsta verkið var sem sagt grínleikur og spunaverk, sem hét Trúðamatarboð. Næst settum við upp leikrit sem ég samdi sem var fallegt drama, í svona raunsæjum stíl, og heitir Einmana, og leikritið sem við erum að gefa út núna, Rauð silkinærföt, skrifaði mamma mín, Eygló Jónsdóttir rithöfundur, og er svona dramatískt nútímaverk. Okkur finnst gaman að prófa nýja hluti, gera tilraunir og bara njótum þess að fá að skapa saman og leyfa töfrunum að gerast,“ bætir Eyrún við.

Það hefur verið mikið um að vera hjá Eyrúnu þessa dagana. Nýja ljóðabókin hennar Í svartnættinu miðju skín ljós hefur fengið frábærar viðtökur, en hún kallar verkið ljóðaviðtöl. Bókin var unnin þannig að hún tók viðtöl við fjölda ólíkra einstaklinga, hlustaði á sögur þeirra og gerði svo þessum frásögnum skil í ljóðaformi. Hvert ljóð er svo nefnt eftir manneskjunni sem á ljóðið. Þá kom einnig nýlega út eftir hana þýðing á bókinni Samræður um frið, ritgerðarsafni Daisaku Ikeda um friðar og mannúðarmál. Auk þess sem smásaga hennar Manngógrautur og döðlubrauð birtist í nýjasta hefti Húsfreyjunnar, en sagan hafnaði í þriðja sæti í smásagnakeppni Húsfreyjunnar fyrr á árinu.

„Já, það er oft ákveðinn uppskera að hausti og svona fram að jólum. Maður er á fullu allt árið að skapa, svo á haustinn bera þessi verk oft ávöxt öll í einu. Þetta er samt búinn að vera dálítið erfiður tími núna. Pabbi minn var bráðkvaddur í sumar og síðustu mánuðir eru dálítið búnir að líða eins og í einhverri þoku. En listinn hjálpar manni ótrúlega mikið, bara að mæta raunveruleikanum og halda áfram. Einnig skilur maður betur hvað fólkið manns og tengsl við aðra eru dýrmæt. Það eru alger forréttindi að fá að skapa með þessu frábæra listafólki sem eru með mér í leikhópnum og svo sjá þetta leikrit verða að veruleika núna. Einnig er ég hálf klökk yfir að bókin

Í svartnættinu miðju skín ljós sé komin út. Það var ótrúlega dýrmæt reynsla að fá að tala við og hlusta á sögur allra þessara stórkostlegu einstaklinga, sem allir eiga svo hrífandi og áhrifamiklar sögur. Þetta er eiginlega eitt stórt samstarfsverkefni, og ég er bara ótrúlega þakklát öllum þeim sem komu að því,“ segir Eyrún að lokum.

Þú getur hlustað á leikritið hér

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2