Nýdönsk lék á heimavelli – Myndir

Mikil stemmning í Bæjarbíói á 72 ára afmæli bíósins

Björn Jörundur Friðbjörnsson

Talið er að 6. janúar árið 1945 hafi fyrsta kvikmyndasýningin verið í Bæjarbíói sem þá var eitt flottasta kvikmyndahús á Íslandi með 325 sæti.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gaf öllum Hafnfirðingum kost á að sjá ókeypis kvikmyndasýningu í bíóinu 10. og 11. janúar það ár og voru sýningar kl. 3, 5, 7 og 9. Þess má geta að þetta var miðvikudag og fimmtudag. Segir að um 3.000 Hafnfirðingar hafi komið á þær 9 frísýningar sem í boði voru en þá var íbúafjöldi Hafnarfjarðar um 4.500.

Hljómsveitin Nýdönsk lék á tón­leikum í Bæjarbíói á síðasta degi jóla þegar tímamótanna var minnst. Þetta voru fyrstu tónleikarnir þar sem notað var nýtt og fullkomið hljóð- og ljósakerfi sem komið hefur verið fyrir í Bæjarbíói.
Nýdönsk fagnar 30 ára starfsafmæli árið 2017 og voru þetta fyrstu tónleikar þeirra á afmælisárinu. Lék hljómsveitin mörg af þekktustu og vinsælustu lögum sínum við gríðarlega góðar undirtektir bíógesta sem troðfylltu bíóið. Fannst hljómsveitarmeðlimum mjög ánægju­legt að leika í Bæjarbíói, þar hafi sveitin spilað á sínum fyrstu árum og liði þeim eins og heima.

Páll Eyjólfsson, annar rekstraraðila bíósins horfir björtum augum á fram­tíðina og segist fullviss um að blómlegt starf verði í bíóinu sem standi undir sér.

Myndir frá tónleikunum: