Nokkrar sögur úr væntanlegri Ingvarsbók

Haukur pressari

Ingvar Viktorsson verður 80 ára á lagardaginn 9. apríl. Af því tilefni var kappanum stillt upp við vegg og þess krafist af vinum hans að út yrði gefið afmælisrit af þessu tilefni sem innihéldi fróðleik og fyndni frá ævi hans. Ingvar færðist í fyrstu undan, en þá var bara þjarmað meira að honum og gaf hann sig á endanum.

Ingvar Viktorsson

Afmælisritið kemur út í nóvember næstkomandi og geta þeir/þær/þau sem vilja senda honum afmæliskveðju og um leið skráð sig fyrir ritinu góða sent póst með nafni/nöfnum, heimilisfangi og kennitölu á netfangið ingvar80ara@gmail.com eða hringt í s. 690 8595.

Hér á eftir birtast nokkur brot úr bókinni og hefst leikurinn á Vífilsstöðum þar sem Ingvar fæddist og ólst upp og verður Haukur pressari þá kallaður fram í sviðsljósið, en síðan verður litið við í Flensborg og svo nefnt lítið dæmi um orðheppni Helga heitins Ragg.

Heiti starfsmannahúsanna á Vífilsstöðum

Öll starfsmannahúsin á Vífilsstöðum áttu sín heiti og sjaldnast voru þau út í bláinn, þótt sum væru ef til vill langsótt. Lítum á nokkur dæmi:

Heimili mín tvö hef ég þegar nefnt, Davíðsborg og Búshús. Ég hef ekki hugmynd um hvernig hið fyrra er til komið, en það síðara liggur væntanlega í augum uppi, eða hvað? Sjálfsagt halda einhverjir að það hafi eitthvað með bús að gera.  Svo var þó ekki, heldur bjó bústjórinn meðal annarra þar og tengist nafngiftin því.

Svo var það Ráðhúsið. Virðulegt nafn og felur það í sér að þar séu skrifstofur ráðandi aðila í sveitarfélagi.  Hjá okkur var því ekki að dreifa. Þetta átti sér þá skýringu að þar bjuggu ráðsmaðurinn og ráðskonan.

Rimman var annað. Það hét svo vegna þess að hart var barist um að fá að búa í því. Pilsakot dró hins vegar heiti sitt af því að þar bjuggu eingöngu hjúkrunarkonur – sem gengu um í pilsum.  Þær voru allar pipraðar og alltaf kallaðar fröken.

Síðan var það hvorki minna né meira en Eilífðin. Þar bjuggu sjúklingar, sem náð höfðu það góðri heilsu að í rauninni voru þeir útskrifaðir af Hælinu, en áttu bara engan stað til að fara á. Þeir döguðu því uppi á Vífilsstöðum, unnu þar og höfðust við í þessu húsi, allt þar til sjálf eilífðin tók á móti þeim.

Með leigubílum í skólann

Það var enginn skóli í Garðahreppi og því var okkur krökkunum á Vífilsstöðum ekið í skóla í Hafnarfirði, Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborg.  Lengi vel sá Nýja bílstöðin um aksturinn og það þýddi bara eitt: Við komum í skólann á leigubílum á meðan heimabörn í Hafnarfirði þurftu kannski að berjast þangað gangandi í úrhellisrigningu eða snjóstormi! Við vorum mjög öfunduð af þessu.

Þetta gilti auðvitað bara um skóla„gönguna“. Þegar ég fór að æfa íþróttir með FH þurfti ég að koma mér sjálfur niður í Fjörð og fór þá ýmist hjólandi, labbandi eða hlaupandi niður á Hafnarfjarðarveg til að taka strætó. Það tíðkaðist ekki um miðbik síðustu aldar að foreldrar keyrðu börnunum sínum á æfingar!

Haukur pressari

Haukur Guðmundsson, kallaður Haukur pressari, var einn af þeim sem dvöldu á Vífilsstaðahælinu.  Hann fékk viðurnefni sitt af því að hann gekk gjarnan um borgina með straujárn og straubretti og bauðst til þess að pressa buxur útvalinna borgarbúa.

Haukur pressari kom eitt sinn sem oftar heim til Alfreðs heitins Elíassonar, forstjóra Loftleiða, til að pressa sunnudagsfötin hans.

Haukur var óvenju forvitinn maður og átti það til að hnýsast eitthvað og snuðra á meðan hann pressaði sunnudagsfötin. Í eitt skiptið brá hann sér frá drykklanga stund og gleymdi heitum strauboltanum ofan á annarri skálminni á buxum Alfreðs. Þegar pressarinn kom til baka logaði glatt í buxum forstjórans og var stór hluti af skálminni brunnin til ösku.

Haukur pressari slökkti eldinn og gekk þegar í stað frá rjúkandi fötunum á sínum stað í fataskápnum. Pakkaði síðan saman sínu hafurtaski og kvaddi húsráðendur, Alfreð og konu hans, Kristjönu Millu Thorsteinsson, með hraði. Sagði svo um leið og hann skundaði á dyr:
„Það þarf ekkert að borga í dag!“

Einu sinni kom Haukur seint heim og sennilega var eitthvað í stóru tánni á honum. Þá datt sjúklingunum á ganginum í hug að stríða karlinum og sögðu:
„Hann Jónas er dáinn og liggur í rúminu sínu.“

Haukur fór inn á stofuna, en hinir læddust á eftir og lögðu eyru á stofuhurðina. Heyra þá að Jónas rumskar og segir eitthvað við Hauk, sem svarar að bragði ansi önugur:
„Þegi þú, Jónas, þú ert dauður.“

Úr Flensborg

Það var lengi til siðs á íslenskuprófum í Flensborgarskóla í Hafnarfirði að kanna skilning nemenda á orðtökum. Útkoman var að sjálfsögðu misjöfn, sumir nemendur voru með þau öll eða flest á hreinu á meðan aðrir gátu ekki státað af sömu þekkingu.  Margir hinna síðarnefndu reyndu þó að bjarga sér.

Fyrirmælin voru öll á sama veg: Fellið orðtök rétt inn í eftirfarandi setningar – lykilorð gefið í sviga. Til frekari útskýringa er rétt að taka eitt dæmi:

Allir vildu hjálpa bóndanum (baggi)

Þarna vildi kennarinn fá: Allir vildu hlaupa undir bagga með bóndanum.

Nokkrar lausnir voru:

  • Allir vildu bera baggann fyrir bóndann.
  • Allir vildu bagga með bóndanum.
  • Allir vildu koma bagganum undir bóndann.

Litlu munaði að illa færi (hurð)

  • Litlu munaði að illa færi fyrir hurðinni.
  • Það munaði hurðarbreidd að illa færi.

Þegar þeir hittust talaði Einar svo mikið að hann virtist aldrei ætla að hætta (dæla)

  • Þegar þeir hittust gekk dælan upp úr Einari.
  • Þegar þeir hittust lét Einar dæluna ganga út úr sér.
  • Þegar þeir hittust talaði Einar svo mikið að dælan ætlaði aldrei að hætta.
  • Þegar þeir hittust dældi Einar ofan í hann orðum.
  • Þegar þeir hittust dældi Einar öllu út úr sér eins og hleypt væri frá vatni.

Við erum ennþá stödd í Flensborg:

Þegar Einar Birgir Steinþórsson var skólameistari Flensborgarskóla var sett inn á tölvukerfi Hafnarfjarðarbæjar tilraunaútgáfa af Java-forrituðu reikniriti í algorythma, sem átti að finna sjálfkrafa út hvort að ljósmyndir, sem settar væru inn á vefi bæjarins, innihéldu nekt.

Áður en umrætt forrit var tekið allsnarlega úr notkun, biluðust starfsmenn tölvudeildar bæjarins hins vegar úr hlátri, þegar andlitsmynd af Einari Birgi birtist ekki, en í staðinn kom eftirfarandi texti:

„Picture content not displayed on page, nudity detector activated!“

Eða: „Myndin er ekki birt á síðunni, nektarskynjari virkur!“

Helgi Ragg

Helgi vinur minn Ragnarsson var oft fljótur að hugsa. Eitt sinn á balli horfði hann aftan á konu eina og fannst baksvipur hennar lofa svo góðu, að hann gekk til hennar og sagði án þess að hafa litið hana augum að framanverðu: „Viltu dansa?“

Í því sneri daman sér við og varð Helgi þá vægast sagt fyrir miklum vonbrigðum. Hún var ekki alveg jafnfögur og hann hugði, svo hann ákvað að losa sig frá henni sem fyrst og sagði ákveðinn: „Hefurðu séð Hansa?“

Ummæli

Ummæli