Ljósmynd dagsins – Stóri-Nýibær í Krýsuvík

Stóri-Nýibær í Krýsuvík. - F.v. Systurnar Guðrún, Þuríður, Hrafnhildur, Sólbjörg og Þórlaug Guðmundsdætur. Systkinin voru alls 17. - Ljósmynd: óþekktur.

Talið er að búið hafi verið í Krýsuvík frá landnámi. Í dag sjást aðeins rústir einar. Höfuðból Krýsuvíkur, Bæjarfell stóð undir samnefndi fjalli skammt frá Krýsuvíkurkirkju.

Skammt þar frá, austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum stóð Stóri-Nýibær. Síðustu ábúendurnir voru Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi (f. 1877, d. 1947) og kona hans, Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík (f. 1877, d .1942). Voru þau þekkt fyrir sinn myndarbúskap. Hófu þau búskap árið 1893 og fluttu þaðan alfarin til Hafnarfjarðar árið 1933 og bjuggu á Jófríðarstöðum 8b til æviloka.

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?

„Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.”

Gaman væri að fá upplýsingar um ljósmyndara. Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, upplýsti okkur um að þarna væru Guðrún, Þuríður, Hrefna (Hrafnhildur), Sólbjörg og Þórlaug Guðmundsdætur, en Þórlaug er amma Guðlaugar. Systkinin voru alls 17.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here